25.11.2011 22:40

Jólasnjórinn...........



Alhvít jörð í Hlíðinni og ágætis útreiðafæri þó svo að kuldaboli biti smá í andlitið.

Ég greip myndavélina og smellti af nokkrum myndum í dag af því tilefni að hún Lisette var að fara heim til Svíþjóðar. Hún hefur verið hér hjá okkur í nokkrar vikur að kynna sér frumtamningar. Það er gaman að fá svona áhugasamt fólk sem til er í að breyta um lífsstíl og fara úr stjórnunnarstöðu í stóru fyrirtæki til Íslands að vinna við hesta í nokkrar vikur.
Myndin hér fyrir ofan er tekin í dag af Mumma og Lis en fljótt á litið er eins og þetta sé ein manneskja og hestur með margar lappir.
Ég er samt að ergja mig á línunni sem að kemur inná myndirnar en þetta er rekstrarspottinn okkar og því þarfa þing.



Síðasti reiðtúrinn á Íslandi í bili en svo kemur Lis aftur í sumar og fer m.a í hestaferðir.
Takk fyrir samveruna Lis og alla hjálpina, við munum sakna þín og örugglega Salómon líka.

Aftekningar ganga nokkuð vel og eru rúmlega hálfnaðar. Kindurnar sem að ekki er búið að taka af fara ennþá út á daginn en í dag fannst þeim að útivist þessa árs væri örugglega á enda.
Þær stóðu hundfúlar heim í rétt fram að hádegi en fóru svo á beit og hafa örugglega hugsað okkur þegjandi þörfina.
Hrúturinn Rótækur Raftsson heimtist svo í Dölunum í gær en þar kom hann fram í fylgd nokkurra kinda. Sá tími er nú kominn að líklegt má teljast að hann hafi náð að auka kyn sitt og því viðbúið að afkvæmin fæðist bæði í Hörðudalnum og Hraunhreppnum. Nú er bara spurningin hvort að einhverjir seðlar fari af stað bænda á milli ? Hvort það verða seðlar með hrútatollum eða seðlar með meðlagsgreiðslum kemur í ljós á næstunni. Annars eru seðlar af flestum tegundum að verða sjalséðir svo að sennilega verða þetta bara pappírslaus viðskipti.

Við síðustu stóðtalningu kom í ljós að tvö trippi hafa sennilega farið á flakk og væri gott ef að þið hefðuð það í huga. Annað er rauð hryssa tveggja vetra og hitt er jarpur hestur vetur gamall. Endilega látið mig vita ef að þið fréttið eitthvað hér í kring.