19.10.2011 21:39
Góðir dagar
Þessar elskur litu út eins og bangsar þegar ég kom við hjá þeim í gær.
Þarna er Fjarki sá brúni sem átti að vera skjótt hryssa, hann er undan Rák og Þristi frá Feti. Ég hef loforð frá Huldu Guðfinnu Geirs vinkonum minni að hann verði alveg rosalega góður því að ég fékk ekki skjótta litinn frá Þristi með. Svo eru það Krakaborg sú sokkótta undan Dimmu og Sporði frá Bergi og sú jarpa Randi undan Snör og Soldán frá Skáney.
Ég fór í eftirlitsferð til að skoða hvort að ekki væri allt í góðu lagi hjá folaldshryssunum og smellti þá þessari mynd af gripunum.
Þarf svo að fara að líta á stóðið í fjallinu og taka stöðuna á því, telja og skoða með ,,stóru,, gleraugunum.
Kannske væri bara rétt að auglýsa innrekstur á stóðinu og bjóða ykkur að koma skoða og sötra úr kaffibollum saman???
Tamningarnar ganga vel og nokkur spennandi tryppi að stíga sín fyrstu spor með knapa.
Veðrið hefur líka leikið við okkur síðustu tvo daga svo að birtutíminn hefur nýst afar vel.
Við höfum verið þrjú að ríða út að undanförnu en eftir þessa tvo vel nýttu góðviðrisdaga eru kosningar á ,,fyrirmyndarhesti dagsins,, í algjöru uppnámi.
Tuttugu og sjö hross voru í kjöri og var hugmyndin að aðeins eitt hross mundi hreppa titil dagsins en heimilisfriðsins vegna eru fyrirmyndarhestar dagsins þrír.
Melkorka, Muggison og Kæna.
Svona í lokin langar mig að segja ykkur frá símtali sem að ég átt fyrir stundu en á línunni var bóndi að segja mér frá meðalvigtinni sinni. Svo sem algengt umræðuefni þessa dagana allavega hjá okkur rolludellufólkinu en vitið þið hvað ???' Meðalvigtin var 25.55 ég segi nú eins og góður maður ,,Já sæll,, er svo bara farin að halla mér og láta mig dreyma um það þegar meðalvigtin verður 20+..............................og allt tví, þrí og fjórlembt.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir