04.09.2011 23:06

Snögg hringferð með LM nefndinni.



Þessa dagana erum við í Landsmótsnefndinni svokölluðu að ferðast um landið og kynna skýrsluna sem unnin var s.l vetur. Nefndin var skipuð til að fara yfir málefni landsmóta.
Í nefndinni voru auk mín Haraldur Þórarinsson, Laugardælum, Kristinn Guðnason, Árbæjarhjáleigu, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Kópavogi,  Stefán Halraldsson, Húsavík og Birgir Óli, Selfossi. Við vorum fjögur úr nefndinni sem að brunuðum af stað á föstudaginn til þess að mæsta á fyrstu fundina. Ég lagði af stað héðan úr Hlíðinni um hádegið á föstudag og brunaði í bæinn þar sem að við Sveinbjörn hittumst. Síðan var ferðinni heitið austur fyrir fjall að Laugardælum þar sem að Haraldur kom í bílinn til okkar. Þá var að brunað í Árbæjarhjáleigu til að taka formann hrossabænda með okkur en hann var nýkominn heim úr smalamennsku þegar okkur bar að garði. Það á því vel við að fyrsta myndin á blogginu í dag sé af kynbótahrútunum hans. Eftir að hafa drukkið góðan kaffisopa með rjóma og jólaköku var stefnan tekin á Hornafjörð.



Eins og alltaf þegar maður ferðast með fróðum og skemmtilegum ferðafélögum verða sögurnar margar og góðar. Á leiðinni austur rifjaði Haraldur upp þegar nokkrir afreksmenn riðu frá Hornafirði að Selfossi árið 2009 og fóru yfir mörg helstu jökulfljót landsins.
Það fór hrollur um mig þegar hann var að segja frá því þegar þeir riðu yfir ósinn við Jökulsárlón og eins og þessi mynd sýnir þá er nú fátt notalegt við ,,Jökkluna,,



Svona var ósinn þegar við komum niður að staðnum þar sem að Haraldur og félagar riðu út í.



Það þorði enginn nema lögmaðurinn að mynda uppá grjótgarðinum enda er hann ýmsu vanur.
Þar sem að fréttir af óróa í Kötlu höfðu borist okkur til eyrna þá var bara gefið í og brunað beint í Freysnes. Þegar við komum þangað var kominn tími á kvöldmat, ekki var nú þorandi annað en að hafa mannskapinn saddan og sælan svona rétt fyrir fyrsta fund.
Ekki bar á neinum lambakjötsskorti þar og fengum við þessa fínu lambasteik sem að svo sannarlega gladdi hjörtu sauðfjárbændanna í hópnum og hinna líka.
Ekki skemmdi það svo fyrir að desertinn var coktelávexir að hætti ömmu með þeyttum rjóma.



Þær voru ekki amalegar móttökurnar sem að ég fékk í Hornafirðinum og einstaklega gaman að hitta fyrrverandi uppáhalds starfskraft. Hefðum þurft að spjalla miklu meira en vonandi kemur hann fljóttlega í heimsókn svo að við getum spjallað yfir dýrindis kvöldverði sem að sjálfsögðu væri heitt slátur með rófum og uppstúfi. (Sannur einkahúmor)



Fundurinn í Hornafirði var gagnlegur, góður og eins og þið sjáið bara skemmtilegur.
Við gistum svo á Höfn en vorum snemma á fótum morguninn eftir því að næsti fundur var á Egilsstöðum kl 11.00 og þangað er drjúgur akstur.



Þarna erum við á Djúpavogi og eins og þið sjáið þá er það rúmlega tveggja manna verk að taka olíu. Eins gott að Kristinn gat sagt þeim til...............................með kortið.



Það er alltaf gaman að kom að Egilsstöðum, þarna eru Kristinn og Jósef Valgarð að ræða málin.



........................og Haraldur kominn með þeim.



Þarna er hluti fundargesta á Egilsstöðum þau Gunnar, Jónas, Pétur, Marietta, Jósef og Gunnþórunn.
Ágætis fundur með líflegum umræðum en strax að honum loknum var haldið af stað til Akureyrar þar sem að fundur átti að hefjast kl 16.00
Við keyrðum sem leið lá til Akureyrar og um það leiti sem við brunuðum framhjá afleggjaranum að Grímsstöðum á fjöllum tókum við smá æfingu í kínversku............svona til vonar og vara.



Á Akureyri var fundarsókn dræm en umræðurnar góðar og gaman að hitta hestamenn þar, hefði samt verið betra að fá fleiri á fundinn.
Fundinum lauk um kl 18.30 og var þá farið rakleiðis á flugvöllinn til að ná fyrstu ferð í bæinn sem varð reyndar ekki fyrr en kl 20.30
Þetta var skemmtilega ferð góðar og gagnlegar umræður sem að vekja vonandi fólk til umhugsunnar um landsmótsmál. Á næstunni verða svo fleiri kynningarfundir og að lokum verða svo málefni landsmóts tekin fyrir á formannafundi LH í byrjun nóvember.

Það var þreytt og syfjuð kona sem að brunaði úr Reykjavík heim í Hlíðina um miðnættið í gærkveldi, þökk sé Guðna Má á Ruv fyrir að hafa haldið henni vakandi.