29.08.2011 23:39
Kellurnar í kellureið.
Hún Astrid okkar brunaði norður að Hólum í dag en þar er hún að hefja nám á fyrsta ári hrossabrautar.
Gangi þér allt í haginn Astrid, vonandi verður þetta bæði til gagns og gamans.
Myndin hér fyrir ofan var tekin í kvennareiðinni góðu af þeim stöllum Sirrý á Hjarðarfelli og Astrid.
Ég var fyrir nokkru búin að lofa myndum úr fínu kvennareiðinni sem að við kellurnar fóru í þann 13 ágúst s.l
Þarna brunar hersingin innað Hafurstöðum og eins og glöggir og kunnugir sjá þá er Hlíðarvatn horfið um stundarsakir úr Hafurstaðalandi.
Fyrsta áning var í túninu á Hafurstöðum, það fór bara vel um flesta eins og sjá má.
Svo var riðið suður fyrir Sandfell og niður með Draugagili þar sem að við stoppuðum og kallarnir komu færandi hendi til okkar.
Þarna eru t.d þrír hressir Einar bóndi í Söðulsholti, Halldór og Mummi.
Já, já þetta var bara gaman Einar, Guðný í Dalsmynni og Laufey húsfreyja á Stakkhamri.
Þarna leggur hópurinn af stað úr Draugagilinu og lét ekki á sig fá þó að lognið í Hnappadalnum færi svolítið hratt yfir.
Eins og þið sjáið var þema dagsins ,,RAUÐUR,, sumar klæddust rauðum fötum aðrir voru með rauðan varalit, nokkrir hestar voru venjufremur rauðskjóttir og jafnvel með tjull í stertinum.
Það var svolítið napurt þennan dag og eins gott að vera vel klæddur og helst í rauðu.
Svo var grillað um kvöldið á tjaldstæðunum í Hlíðinni og ég verð nú að segja ykkur það í trúnaði að ekki var hitastigið hátt sem að kellunum var boðið uppá við borðhaldið.
.............en það var samt gaman eins og sjá má.
Skál fyrir flottum kellum og góðum degi.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir