24.07.2011 23:29
Góður dagur
Þessar dömur voru forvitnar þegar ég hitti þær í fjallinu fyrir stuttu............
Sú jarpa er Randi frá Hallkelsstaðahlíð en hin er Krakaborg frá Hallkelsstaðahlíð.
Krakaborg er undan Þríhellu frá Hallkelsstaðahlíð og Sporði frá Bergi.
Randi er undan Soldán frá Skáney og Snör frá Hallkelsstaðahlíð, hér eru æfingar í gangi sem auka örugglega gangfimi og lipurð.
Í gær riðum við með gestunum okkar frá Stakkhamri að Hömluholti, ferðin gekk vel og fjaran var frábær. Mig er strax farið að hlakka til þegar við förum aftur á fjörurnar innan skamms.
Annars gekk nú á ýmsu áður en við fórum af stað að heiman í gær. Gönguhópur einn af mörgum lagði á fjöllin frá okkur um hádegisbilið. Um miðjan daginn birtist svo lögreglan og sjúkrabíll hér á hlaðinu. Kom þá í ljós að einn af göngugörpunum hafði fengið brjóstverk og þurfti á hjálp að halda. Var því rokið af stað til fjalla á jeppum og fjórhjóli sem að flutti læknir og lögreglu til sjúklingsins. Aðstæður voru þannig að ákveðið var að kalla til þyrlu sem að kom eftir ótrúlega stuttan tíma og lenti á svokölluðum lærri bekk í Rögnumúla.
Var sjúklingurinn fluttur suður og er vonandi á batavegi.
Það var gestkvæmt í Hlíðinni um helgina og ansi líflegt hestar og hryssur komu og fóru.
Hestaferða og gönguhópar fóru hjá og margt fleira skemmtilegt í gangi.
Nú er bara að fara undirbúa Skjónufélagshittinginn sem verður hér á þriðjudaginn.........
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir