19.07.2011 13:26
Hlíðin mín fríða og ýmislegt fleira.
Hlíð frá Hallkelsstaðahlíð fædd árið 2007.
Faðir Glymur frá Innri- Skeljabrekku og móðir Kolskör frá Hallkelsstaðahlíð.
Það kom rigning hér í gær sem að klárlega er aðal frétt vikunnar enda sama og ekkert rignt í margar vikur. Grasið lifnaði, brúnin léttist á bændunum og meira að segja fiskarnir tóku stökk í vatninu. Svo er bara að vona að einhver meðalvegur sé til í úrkomustjórnun og að það rigni ekki stanslaust fram á haust. Við erum ekkert farin að heyja en óðum fer nú að styttast í það.
Skúta hans Mumma kastaði þann 16 júlí s.l merfolaldi undan Stíganda frá Stóra- Hofi. Hryssan hefur hlotið nafnið Fleyta og bætist það með í ,,bátaflotann,, hjá kappanum.
Mummi hefur ákveðið undir hvaða stóðhest Skútan á að fara en nánar um það síðar.
Á föstudaginn var brunað vestur á Þingeyri við Dýrafjörð til að dæma gæðingamót hjá Hestamannafélaginu Stormi. Þetta var glæsilegt afmælismót hjá þeim og margir góðir hestar.
Mér eru afar minnistæðir synir Óðs frá Brún sem að voru mjög áberandi á þessu móti flestir aðeins 5 vetra gamlir. Ræktandi þessara fola er Árni bóndi á Laugabóli við Arnarfjörð.
Aðstaðan hjá þeim Stormsmönnum er hreint frábær ný reiðhöll, góður völlur og flottar útreiðaleiðir. Það var mjög gaman að koma á þetta mót og ekki sveik nú blíðan á vestfjörðunum frekar en fyrri daginn þegar ég er þar á ferðinni.
Innilega til hamingju með afmælið Stormarar og takk fyrir góðar móttökur.
Mikil umferð hesta og gönguhópa hefur verið hér um uppá síðkastið og þó nokkuð af veiðimönnum sem að hafa bara verið kátir með aflann. Sjá gestabók hér á síðunni.
Ég er ekki búin að gleyma hvað ég ætlaði að koma inn upplýsingum um mörg söluhross á næstunni og er svo sannarlega að reyna að standa mig.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir