09.05.2011 10:02

Vorið góða



Hniðja litla Tignar og Sparisjóðsdóttir skoðar heiminn með Geirhnjúkinn í baksýn.

Nú fer spennan að aukast og biðin eftir  folöldunum að styttast, tvær hryssur eru komnar í eftirlitshólfið góða. Það eru hryssurnar Rák frá Hallkelsstaðahlíð sem er fylfull við Þristi frá Feti og Snör frá Hallkelsstaðahlíð sem er fylfull við Soldáni frá Skáney. Þeim til halds og trausts verður svo hún Tign mín frá Meðafelli sem nú er fylfull við Alvari frá Brautarholti.

Sauðburðurinn er kominn vel af stað og u.þ.b helmingur af þeim kindum sem að sæddar voru eru bornar. Vonandi eiga fleiri eftir að bætast við. Það var mjög skrítið að fyrstu 12 kindurnar sem að báru úr sæðingunum voru kollóttar en hlutfall þeirra á móti hyrndum er ca. 20 %.  Ég varð himinlifandi í gær þegar fæddust tveir hrútar undan Kveik frá Hesti en Sindri minn sem að ekki kom af fjalli í fyrra var einmitt undan honum. Verða þessir tveir skoðaðir með betri gleraugunum í haust með von um jákvæða umsögn Lárusar ráðanauts.
Að sjálfsögðu hafa þessir gripir fengið nöfn sem að eru Svarti-Sindri og Sindri 2.

Eldri hrútarnir og geldar kindur voru settar út í gær, gemlingarnir bíða samt enn eftir fleiri og lengri grænum stráum.
Rúllan er skammt undan svo að ekki væsir um sparikindurnar og geldféð.

Biðin ótrúlega eftir lambamerkjunum heldur áfram og virðist ætla að vera nærri því árviss viðburður. Nýfæddu lömbin eru því farin að minna óþægilega á ,,kvikmyndastjörnur,, úr Dalalífi, rauð, blá og Guð veit hvað.
Eins gott að úr rætist hið fyrsta svo að húsfreyjan glati ekki síðustu glórunni.

Fulgalífið er í algjörum blóma hér við gluggann minn lóan kvakar og stelkurinn flytur Salómon svarta baráttusöng með þakklæti fyrir vel unnin næturstörf alveg heim að húsi.
Tjaldurinn, spóinn og endurnar sem að ég reyndar elska ekki mikið (þær fljúga uppúr skurðunum og fæla hrossin) eru öll mætt á svæðið en krían er ekki komin svo vitað sé.
Ég heyrði fyrst í hrossagauknum þetta vorið í suðaustri, er það ekki nokkuð gott ?
Er það ekki sælu og auðnugaukur ? Eða er ég eitthvað að ruggla ?