01.04.2011 22:46

1 apríl.......................



Já það er svo sannarleg skítalykt af mörgu sem að fram fer í þjóðfélaginu þessa dagana.
En mér dettur ekki í huga að ergja mig á því vegna þess að vorið er komið, bara páskahret og sauðburðarhret eftir. Vona bara að hretin nái ekki saman.

Annars hefur á köflum verið stríðsástand hér á bæ, ekki hafa það þó verið bændur og búaliði sem skapað hafa þetta ástand heldur hundarnir á heimilinu.
Aðal ósættið er á milli Snotru og Deilu sem lent hafa ítrekað í blóðugum slag en bræðurnir Ófeigur og Þorri standa hjá og hvetja dömurnar til dáða. Vinkonurnar hafa alla jafna verið friðsamar og elskulegar án allra vandræða. Hvað gerir það að verkum að uppúr sýður er ekki gott að segja en málið er heitt.
Í dag náði ástandið hámarki þegar að allir fjórir hundarnir ruku saman og slógust þar til húsfreyjan rauk út með hringtaumspískinn að vopni.  Sennilega hafa hundarnir einhverntímann heyrt að reiðar konur séu ekkert grín og hættu um leið og fyrsti kafli af skammarræðunni var rétt að hefjast.
Útkoman = ein tík tölt á tveimur löppum, önnur með blóðugt bólgið nef, einn hundurinn hárreittur og annar úttaugaður af æsingi því fjörið var stoppað alltof fljótt.
Keli köttur sýndi ótrúlegt hugrekki fylgdist með úr lítilli fjarlægð og gerði sig á köflum líklegan til að taka þátt. Leyfi mér að efast um að hann hefði farið vel út úr þátttöku í þessu fjöri þó brattur sé.
Ég verð að fara að kaupa spegil handa honum hann er sannfærður um að hann sé hundur og meira að segja yfirhundur.

Óvæntur liðsauki mætti til okkar í vikunni, sauðfjárbóndi að vestan sem kann heldur betur til verka og urðu afrekin eftir því. Takk kærlega fyrir alla hjálpina Marinó og Freyja.

Á morgun er það svo gestamóttaka en Jón Gnarr borgarstjóri ætlar að hefja veiðitímabilið í Hlíðarvatni kl 14.00
Verður spennandi að sjá hvort að veiðin standi undir væntingum.