15.01.2011 22:19
Dalirnir og fleira.................
Ég var boðin í kvöldverðarskemmtun/fund inní Búðardal í gær þar sem að hestamenn hittust, fræddust og skemmtu sér og öðrum gestum. Af því tilefni voru þessar myndir teknar en veislustjórinn stjórnaði ,,útsvars,, spurningakeppni sem var hin mesta skemmtun.
Á myndinni hér fyrir ofan er annað liðið sem var skipað þeim Svanhvíti húsfreyju í Lindarholti, Valberg bónda og kynbótadómara Stóra-Vatnshorni og Guðbirni bónda og landpósti í Magnússkógum.
Þarna er svo hitt keppnisliðið sem var skipað Margréti bónda í Miklagarði, húsfreyjunni í Gufudal sem að ég því miður veit ekki hvað heitir og Sigurði Hrafni bónda og þúsundþjala á Vatni.
Keppnin var æsispennandi en lauk með sigri Sigurðar og kvennanna, sennilega var það snarræðið við að ná bjöllunni sem að gerði gæfumuninn. Siggi alltaf sprækur.
Alltaf gaman að koma í dalina og hitta hresst hestafólk.
Gleði dalamanna hefur svo haldið áfram í kvöld þegar dalamaðurinn í söngvakeppninni komst áfram í forkeppninni. Til hamingju Halli Reynis.
Á fimmtudaginn brunaði ég í bæinn til að funda með stjórn Félags tamningamanna og nokkrum öðrum félögum. Þessum fundi hafði áður verið frestað vegna veðurs sem að reyndist svo litlu skárra þennan dag. Allavega var ég ánægð að vera á þungum og traustum trukki sem að mér finnst stundum svifaseinn en lofaði í þessari ferð.
Fundurinn var góður og margt af spennandi hlutum að gerast.
Loksins kom gott verður og færi til að ríða út eins gott að nýta það því veðurkortin bjóða víst uppá frost og rok innan skamms. En bannað að kvarta...........
Hér á bæ er reynt að fylgjast með handboltanum eins og kostur er en frekar er það nú frumstæður máti sem boðið er uppá núna. Reyndar náðum við leiknum í gær á netinu en ekkert gekk í kvöld.
Til að koma orkunni í lóg sem fara átti í spenning yfir leikjunum er Stöð 2 bölvað svolítið svo að ekki sé nú talað um hugsanlegt eignarhald á gripnum.
Já en einhversstaðar verða vondir að vera.......................
Sauðfjárhornið.........
Í morgun voru hrútarnir teknir frá gemlingunum og fækkað í krónum hjá rollunum. Þannig að nú er bara einn hrútur eftir í hverri kró og allar stíur teknar í burtu. Einskonar tiltekt.
Hrússi úrilli vinur minn er kominn í frí fram að næstu jólum og getur því byrjað að safna kröftum þangað til. Vonandi verða þeir kraftar samt notaðir til góðra verka.
Þegar allar stíur höfðu verið fjarlægðar fengu sumar kindurnar háfgert víðáttubrjálæði og hlupu og hoppuðu út um allar krær.
Hrútarnir sem að urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að verða eftir með um það bil 70 kindum hver æddu fram og til baka í leit að ,,einhverju,, en varð lítið ágengt. Sem betur fer.
Ég veit ekki afhverju mér datt í hug orðið ,,hálfþrjúmaður,, sem að ég heyrði eitt sinn notað í grátbroslegri merkingu.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir