29.12.2010 23:30

Sauðfé og fréttir



Þarna er Kjartan bóndi á Dunki með kynbótahrútinn Dunk frá Dunki.

Ég átti alveg eftir að segja ykkur frá öllum hrútakaupunum sem að ég fór í núna í haust.
Þessi flotti kappi er eðalblanda úr ræktun þeirra Kjartans og Guðrúnar, hann stigaðist mjög vel í haust og er núna önnum kafinn við að bæta kollóttastofninn hér í Hlíðinni.
Ein góð kvöldstund fór líka í kynbótapælingar á jötubandinu á Bíldhóli. Afraksturinn varð tveir kollóttir hrútar og ein svartgolsótt gimbur. Hrútarnir eru mjög ólíkir og verður gaman að sjá hvor á eftir að standa sig betur í kynbótunum. Þeir hlutu nöfnin Bíldhóll og Músi. Síðan er það sú golsótta sem fékk frábæran dóm og í beinu framhaldi nefnd Ofurgolsa.
Mikilvægt skref var stigið í sauðfjárræktinni hér í gær (sko að mínu mati) þegar að forustukindin á bænum brá sér suður á Mýrar á stefnumót. Fora heitir kindin og er mikil gæðagripur af forustukind að vera spök og skemmtileg en afar létt á fæti þegar það á við.
Af gefnu tilefni þá fer hún ekki útaf landareigninni nema á bíl svo að það getur enginn nema smalar á mínum vegum kvartað yfir henni og það mundi þeim aldrei detta í hug.
Gripurinn sem að hún fór að hitta er af eðal forustukyni og því væntingarnar miklar og að sjálfsögðu er draumurinn að fá gimbrar.
Já sauðfjárræktin er skemmtileg og alveg hægt að drepa tímann með henni eins og hrossaræktinni.

Í dag var drauma vetrarveður hestamannsins, snjóföl, logn og blíða með frábæru færi.
Enda var dagurinn vel nýttur og varð þar af leiðandi ansi langur en svona er það þegar mikið er gaman.
Fyrirmyndarhestar dagsins urðu bara nokkuð margir og því erfitt að gera uppá milli.
Á morgun þarf svo að smella nokkrum örmerkjum í gripi og halda áfram að klippa kviði (bumbur) og raka undan faxi.

Á morgun er líka sýnikennsla á vegum Félags tamningamanna með Sigurbirni Báraðrsyni knapa ársins.
Sýnikennslan fer fram í Gustshöllinni Kópavogi og hefst kl 20.00 allir velkomnir.
Aðgangseyri er stillt í hóf og er kr 1000,- en skuldlausir FT félagar fá frían aðgang.