23.11.2010 22:46
Sparisjóður og vindurinn sem blæs............
Er ekki nauðsynlegt að smella inn svona vormyndum öðru hvoru með grænu grasi og blíðu ?
Svo gott fyrir sálina.
Þarna er hann Sparisjóður minn þegar hann var á gelgjualdrinum, alltaf kátur og ljúfur kallinn. Fyrir þá sem að ekki vita þá er Sparisjóður stóðhestur á fimmtavetur undan Gusti frá Hóli og Karúnu frá Hallkelsstaðahlíð. Sparisjóður var taminn þó nokkuð í fyrravetur en veiktist illa í vor og var í fríi í vor og sumar. Nú er hann aftur á móti kominn á járn og bara gaman hjá honum og þjálfaranum. Það eru til nokkur tryppi undan honum og sum bara nokkuð snotur með góðar hreyfingar og skemmtilegt geðslag.
Það er allt komið á fullt í hesthúsinu og það orðið fullt eins og vera ber á þessum tíma. Meðalaldurinn er ekki hár en skemmtanagildið er hátt og margt bara nokkuð spennandi.
Ungu tamningahrossin eru meðal annars undan Glym frá Skeljabrekku, Krafti frá Bringu, Baugi frá Víðinesi, Gosa frá Lambastöðum, Hersveini frá Lækjarbotnum, Blæ frá Hesti og Arði frá Brautarholti. Svo eru það söluhross og þjálfunarhestar sem margir eru undan góðum höfðingjum eins og Gusti frá Hóli, Hróðri frá Refsstöðum, Randver frá Nýja-Bæ, Stæl frá Miðkoti og nokkrum fleirum.
Á næstu dögum verður formlega gengið frá hrútaviðskipum ársins og lofa ég myndum af því tilefni. Eitt skyggir þó á þegar rætt er um hrúta á þessum bæ en Sindri minn Kveiksson er ennþá týndur. Eins gott að snúa útúr og ,,trúa ekki því versta en vona það besta,,
Ég efast stórlega um að ég hafi greind til að kjósa til stjórnlagaþings svo sómi sé að svo líklega sleppi ég því bara. Er samt á því að maður eigi alltaf að nota kosningaréttinn sérstaklega ef að maður er kona. Þannig að til þess að vera sjálfri mér samkvæm verð ég að reyna að vitgast stórlega þessa síðustu daga fram að kosningum.
Er reyndar nokkuð viss um að lítið muni koma útúr þessu veseni og finnst að margir frambjóðendur hafi verið orðnir svo æstir að komast í framboð í ,,einhverju,, að þeir hefðu gripið tækifærið óháð málefnum. En vafalaust er þetta allt hið vænsta fólk.
Annars er margt sem að ég ekki skil.................ætla að deila nokkrum atriðum með ykkur.
Í kvöld hlustaði ég á fréttirnar á Ruv þar var rætt við ráðherra sem að taldi það mikla gæfu að flytja málefni fatlaðra til sveitafélaganna. Ekki ætla ég að leggja mat á það en sperrti eyrun þegar hann dásamaði hversu gott það væri að hafa þetta allt í ,,nærumhverfinu,, flytja málefnið ,,heim,, ................eitthvað svo notalegt.
Einhverntímann heyrði ég að nálægðin væri versti óvinur lítilla samfélaga, kannske hef ég bara misskilið.
Annað mál hef ég sennilega líka misskilið...................mér finnst ég oft hafa heyrt fólk tala um það með talsverðu þjósti og í leiðinda tóntegund að eitthvað sé í ríkiseigu.
Svo nefnir þetta sama fólk atriði sem að best væru komin í þjóðareign ( orðið þjóðareign er þá gjarnan sagt lágt og í mjög ljúfum tóni)
Mín niðurstaða er að einhvers misskilnings gæti jafnvel meðal annara en mín.
Ríkiseign og þjóðareign ??????????
Nærumhverfi og ,,heima við hjá fólkinu,, ????
Amma sagði stundum ,, svona eins og vindurinn blæs,, góða.
Hvað finnst ykkur?
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir