24.09.2010 01:42

Skútan heim og leyndarmálið okkar.



Þessi mynd heitir ,,Hópdrykkja,, hljómar kannske ekki vel en ef að þið skoðið nánar þá er það ekki mjög áfengt sem drukkið er heldur hreint og tært Hlíðarvatn.

Bara svo að það fari ekkert á milli mála þá hef ég sett inn nýjar myndir hér á síðuna sem teknar voru í réttunum. Vonandi eru allir sáttir við þessa birtingu enda allar myndir innan velsæmismarka. Eina sem að ég hafði áhyggjur af er það hvort að allir hafi nú verði vel til hafðir og ferskir. Mér sýndist allir þola samanburð nema þá helst húsfreyjan en hún er ýmsu vön svo þetta sleppur.

Eins og áður sagði fóru 402 lömb í slátur frá okkur í fyrra dag, hér hefur verið beðið eftir því að vigtartölurnar kæmu í hús. Að sjálfsögðu er alltaf spenningur að fá fyrstu tölur já svona eins og í kosningunum. Ég hef séð á fésbókinni að það er misjafnt hvort að fólk birtir þessar tölur en ég hef talið mér trú um að þeir einir birti tölurnar sem að eru þokkalega ánægðir með tölurnar. Ég er enn að spá í hvort að okkar tölur séu nógu góðar til birtingar, er ekki alveg viss. En þar sem að þið eruð nú orðvör og vel innrætt þá læt ég þær flakka og sjáið til svona okkar á milli. Meðalvigt á 402 lömbum 15,83 kg og einkun fyrir gerð 9,1.

Í gær sóttum við Skútu og Þjóhátíð sem að voru hjá Stíganda frá Stórahofi í Jaðri hjá Krissu og Agga. Klara vinkona mín frá Lambastöðum var þar líka með sitt folald og tókum við hana með heim. Eins og vænta mátti þá voru báðar hryssurnar fylfullar og í mjög góðu standi.
Takk fyrir góða þjónustu Jaðarsbændur.
Og þá eru allar hryssur komnar heim frá stóðhestum og viti menn allar hafa þær sónast fengnar.