11.09.2010 22:21
Spennandi tamninga og söluhross.
Já þau eru mörg skemmtileg hrossin sem eru hjá okkur núna og eins og ég var búin að lofa um daginn þá koma hér fleiri myndir af tryppunum.
Þarna eru Krapi Gustsson og Mummi að leika sér á góðum degi.
Krapi er í miklu uppáhaldi hér á bæ enda ekki skrítið þar sem hann er bæði bráðefnilegur og skemmtilegur.
Þarna er eigandinn að athuga hvort það sé ekki allt með feldu hjá Krapanum.
Eins og þið sjáið þá fór vel á með þeim og alveg öruggt að Krapi þekkti eigandann vel.
Vonandi ber hann okkur þokkalega söguna.................hann Krapi.
Þetta par rakst ég líka á útá vegi þarna eru Anne og Muggur hress að vanda.
Annars er það helst að frétta héðan úr Hlíðinni að í dag var algjört hitamet miðað við að það er kominn 11 september. Hér komst hitinn í 22.5 stig svo að dagurinn var hreint yndislegur.
Mér var hugsað til þeirra sem að voru að smala í dag full heitt fyrir hesta, menn og tölum nú ekki um kindurnar sem alltaf eru í lopapeysunni.
Við erum búin að semja um gott veður næstu vikuna og sérstaklega næstu helgi, bíðum bara eftir formlegu svari.
Það er mikið riðið út þessa dagana enda hörkulið hér hjá okkur núna og fullt af skemmtilegum hrossum. Undirbúningur fyrir réttirnar er í fullum gangi svo það er í mörg horn að líta.
Húsfreyjan tekur rispur í bakstri á kvöldin og nær bara ágætis tilþrifum (að eigin áliti, svo kemur í ljós síðar hvort það á við rök að styðjast).
Er búin að baka sírópslengjur, formkökur, sítrónukökur, Frú Áslaugu og fleira.
Allt að gerast í Hlíðinni.................
Eins og þið hafið kannske tekið eftir höfum við sett inn nokkur ný söluhross og fleiri bætast við á næstunni. Svo erum við alltaf með fleiri hross til sölu sem að ekki hefur komist í verk að setja inná síðuna. Hvet ykkur til að fara inná Worldfeng og skoða hrossin okkar nóg að setja inn bæjarnafnið sem sagt frá ,,Hallkelsstaðahlíð,,
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir