31.05.2010 23:10
Landsmóti frestað og Rák hittir Þristinn.
Jæja þá er loks komin ákvörðun um að fresta Landsmóti hestamanna um eitt ár erfið en skynsamleg ákvörðun eins og staðan er um þessar mundir.
Þetta eru erfiðir tímar fyrir alla hestamenn, tjónið mikið og engan veginn allt komið í ljós.
Ég sat formanna fund hjá LH síðast liðinn föstudag þar sem þessi mál voru rædd og síðan fund hjá Sjávarútvegs og Landbúnaðarráðuneytinu í dag þar sem þessi ákvörðun var endalega tekin. Á fundinn mætti samráðshópur hagsmunaaðila um LM 2010 sem áður fundaði þann 21 maí s.l hópurinn var sammála um þessa ákvörðun. Sameiginlega yfirlýsingu getið þið séð á hestamiðlunum einnig bendi ég á yfirlýsingu frá Félagi tamningamanna sem ég birti hér á blogginu fyrir nokkru.
Nú er bara að snúa bökum saman fara varlega og reyna með því að lágmarka tjónið eins og unnt er. Í erfiðleikunum felast oft tækifæri sem erfitt er að koma auga á meðan mesti skellurinn gengur yfir. Vonandi gengur þetta fljótt yfir og hver veit nema í þessum erfiðleikum felist tækifæri handan við hornið sem að við höfum ekki ennþá komið auga á.
Nú stefnum við á Vindheimamela næsta sumar og eigum þar saman gott landsmót.
Þá er komið að daglegu dundi hér í Hlíðinni.
Rák og litla Brák dóttir hennar fóru suður á land í gær, tilgangur ferðarinnar var að hitta hann Þrist frá Feti. En hún Andrá mín sem að ég missti um daginn var einmitt með fyli undan honum. Svo að þetta er tilraun númer tvö við að fá gæðingsefni undan Þristi og núna heppnast það vonandi vel.
Sauðburðurinn er farinn að síga vel á seinni hlutann og bara 16 kindur eftir að bera. Hér hefur verið markað og sleppt af miklum móð að undanförnu.
Langt er komið að bera á en fjárfjöldinn á hluta túnanna tefur svolítið fyrir, klárast vonandi í vikunni.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir