12.05.2010 23:20
Sauðburðarkveðskapur.
Þarna sjáið þið lambakónginn og drottninguna þau voru að sjálfsögðu fyrstu lömbin til að fara út og það var sem sagt í gær. Í dag byrjaði svo fjörið og ég markaði nokkuð stóran hóp sem nú er kominn út að smakka á græna grasinu.
Sauðburðurinn hefur farið vel af stað (sjö níu þrettán) og allt innan eðlilegra marka ennþá.
Nú er allt komið í fastar skorður og vaktirnar farnar að ganga smurt en rosalega er nú samt skrítið að vera ekkert að ríða út á þessum tíma. Mummi hefur séð um hesthúsið og fylgjist grant með heilsufarinu. Vonum að pestin fari að ganga yfir svo að allt fari að færast í venjulegt horf. Á samt erfitt með að sjá fyrir mér hvernig landsmót kemur til með að vera en nánar um það síðar.
Eins og áður sagði eru vaktirnar farnar að rúlla og höfum við eins og stundum áður fengið hjálp góðra manna. Smalarnir okkar þeir Hrannar og Pétur hafa vakað síðustu nætur og hafa leyst vökuverkefnið af stakri prýði. Gist í því efra og stundum verið þar í mat líka. Það hefur verið hefð undan farin ár að vaktirnar hafa skipst á kveðskap og er það eins núna.
Í morgun var þessi vísa á töflunni.
Vorið það kemur og veturinn fer
um víðáttur ungviði skokka.
Rollurnar lömbunum ryðja úr sér
og Ragnar og Sveinbjörn þeir kokka.
Fyrir nokkrum dögum átti Pétur afmæli þá kom þessi sending frá ,,vökuvininum,,
Fertug tala á fantinum.
Fellur eystra askan.
Kaldur er á kanntinum.
Hvar er vodkaflaskan?
Já það er spennandi að sjá hvað verður á töflunni í fyrramálið.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir