14.03.2010 22:38
Og ferðasagan heldur áfram.
Usssss ...........hundlöt húsfreyja hefur ekki staðið sig vel í fréttaskrifum að undanförnu en nú skal úr því bætt. Verð samt að deila því með ykkur að síðustu sólarhringar hafa verið í styttra lagi ég held jafnvel að einhverjir tímar hafi hreinlega týnst. En nóg um það.
Við vorum komin í Húnavatnssýslurnar þegar ég bloggaði síðast........var það ekki????
Þegar við komum að Blönduósi tók Gunnar bóndi á Þingeyrum á móti okkur og fylgdi okkur um svæðið. Fyrst fórum við í hesthúsið til Tryggva Björnssonar á Blönduósi þar var greinilega nóg um að vera og fullsetið í hverju plássi. Margir kunnir gripir voru þar og einnig margir nýjir sem miklar væntingar eru bundnar við. Við komum líka við hjá þeim Ragnari og Söndru sem reka sína tamningastöð í hesthúsinu við reiðhöllina á Blönduósi.
Frá Blönduósi var svo brunað í Grafarkot til þeirra Herdísar og Indriða þar var mikið um að vera og margir spennandi gripir að sjá. Ekki má gleyma ný endurnýjuðum fjárhúsum sem við skoðuðum auðvitað líka og ekki litu þær dónalega út kindurnar á þeim bænum.
Frá Grafarkoti var farið að Þingeyrum þar var byrjað á því að skoða í hesthúsið undir góðri leiðsögn Gunnars bónda. Eins og við var að búast fengum við konunglegan kvöldverð hjá frú Helgu heimareykt sauðalæri sem að Kristinn er enn að dásama enda ekki skrítið.
Um kvöldið var svo fundur á Blönduósi sem var nokkuð vel sóttur og ljómandi góður.
Að fundi loknum var svo brunað heim eftir skemmtilegan dag.
Takk fyrir okkur Húnvetningar.
Mánudaginn 8 mars var svo haldið af stað á ný en þá var fundur í Reykjavík, ágætis fundur en eitthvað voru nú straumarnir öðruvísi en á fyrri fundunum.
Vonandi verður betra andrúmsloftið á Landsmótinu þar árið 2012.
Þriðjudagsfundurinn var svo haldinn á Hvanneyri þar var góð mæting og skemmtilegur fundur og það sama má segja um miðvikudagsfundinn sem haldinn var á Selfossi.
Nú eru bara tveir fundir eftir í þessari fundaherferð Egilsstaðir og Hornafjörður spennandi dagar fram undan. Nánar um það síðar. Verð líka að standa mig betur með myndavélina.
Annars er það helst í fréttum að við fórum á töltmót í Borgarnesi um helgina. Feðgarnir tóku þátt í mótinu Mummi á Fannari og Skúli á Gosa. Þeir voru bara nokkuð ánægðir með árangurinn og komust þeir félagar Skúli og Gosi í úrslit. Gosi er allur að ná sér af meiðslum sem hann hlaut í fyrravor og er útlitið bara nokkuð gott.
Mummi kom heim í smá helgarfrí og hefur nýtt tímann hér heima vel við að prófa hross og ríða út af kappi. Hann er svo ánægður með dvölina í Steinsholti að hann hefur lítið verið á ferðinni enda um að gera að læra sem mest og nota tímann vel.
Svo er náttúrulega tekur hann foreldrana í gegn og reynir af fremsta megni að herða upp á þeim í reiðmennskunni. Vá hvað er spennandi að vera Hólanemi.
Vorveðrið síðustu daga gerir það að verkum að hér hefur verið riðið út langt fram á kvöld og ekki var nú slæmt að ríða út í þoku og súld framm í myrkur þetta kvöldið.
Hann Lalli okkar kom líka um helgina og var tekin smá sveifla í aftekningum, bara svona til að rifja upp fyrir honum hvernig á að leggja kindur.