21.01.2010 00:00
Ég fékk auka kast
Þessi mynd var tekin í haust þegar rúningur var frá og sýnir meðal annars tvo botnótta liti.
Þessi dagur einkenndist af miklum spenningi fyrst var að drífa sig í hesthúsið og vera búin að hreyfa sem flest hross áður en handboltafárið byrjaði, síðan var næst að höndla fárið mikla.
Og á slaginu fimm voru öll sæti í heimastúkunni þétt setin.
Þetta byrjaði strax með látum en þar sem húsfreyjan er alla jafnan nokkuð spök var allt á þokkalegu róli framan af. Reyndar var nammi borðað eins og matur,svolítið öskrað og ætt fram í eldhús öðru hvoru, það er passlegur göngutúr þegar losa á um andlega angist.
Strax í byrjun seinni hálfleiks mögnuðust lætin og urðu þá öskrin og köllin jafnt á íslensku og dönsku. Sko til að upplýsa ykkur nánar þá er Astrid íslendingur alveg þangað til Danmörk fer að keppa. Þegar hér er komið við sögu kom Salómon rölltandi fram og labbaði framhjá sjónvarpinu og gaf okkur í leiðinni skipun með augnaráðinu að nú væri mál að sökkva í það minnsta lækka á imbanum. Nokkru seinna kom hann til baka og hefði öruggleg skellt hurðum yfir hávaða ef að hann hefði verið kona.
Leikurinn hélt áfram og Dolli dropi íþróttafréttamaður var orðin svo æstur að ég hafði á tilfinningunni að hann færi að stökkva inná og henda Óla Stef útaf.
Ég verð að játa að þegar hér var komið við sögu var blóðþrýstingurinn kominn yfir leyfileg mörk hjá virðulegri spússu og göngutúrinn í eldhúsið allt of stuttur til að ná sálarró.
Þannig að eini kosturinn í stöðunni var öskur, óp og nammiskálin sem var fyrir löngu orðin tóm.
Síðasti hluti leiksins var svo spennandi að það var jafn hvass fyrir framan sjónvarpið og úti í storminum. Eins gott á svona stundum að eiga bara gamlan imba en ekki rándýran flatskjá allavega ef að leikurinn hefði verið aðeins lengri.
Svo komst ég líka að því að það eru ekki bara dómarar í hestíþróttum sem eru ,,vitlausir,, og sjálfsagt að skamma ef ekki gengur vel, það geta líka verið Rúmenskir handboltadómarar.
Þetta eru nú strákarnir okkar svona sætir og flottir...............en þeir klúðruðu samt. Arrrg.
Ég ákvað að sleppa því að horfa á seinni leikinn en Astrid sem nú var orðin dönsk horfði á danina sigra örugglega. Henni var komið í skilning um að njóta þess í dag og á morgun að danirnir hefðu sigrað því þeir tapa örugglega á laugardaginn. Hún hefur nú ákveðið að fara uppí gamla bæ og horfa á leikinn með Svenna svo að hún geti hugsanlega haldið áfram að vera dani.
Sjónvarpskvöldið endaði svo ljómandi vel hjá mér því á fimmtudögum er helgistund þegar ég horfi á heimildarþættina góðu Aðþrengdar eiginkonur.
Ég renndi yfir Skessuhornið á vefnum í dag eins og ég geri flesta daga og rakst þá á ánægjulega frétt. Þar er verið að tíunda afurðahæstu kúabúin og bestu kýrnar yfir landið.
Þar kemur fram að efstur á Vesturlandi og í fjórða sæti yfir landið er sveitungi minn og frændi Steinar Guðbrandsson í Tröð hér í gamla góða Kolbeinsstaðahreppi.
Hann og Rannveig kona hans hafa rekið þetta bú af miklum myndarskap í áraraðir og hvorki látið glepjast af róbótum eða mjaltaþjónum.
Innilega til hamingju með þetta Rannveig og Steini.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir