16.12.2009 21:39
Ferningur flytur, fundir og fjör.
Það var aldeilis frábær matur sem við í FT fengum þegar við héldum aðalfund félagsins um daginn. Og það var að sjálfsögðu hann Jonni vert á Kænunni í Hafnarfirði sem galdraði hann fram. Takk fyrir okkur góður matur og frábær andi hjá ykkur á Kænunni.......er svo ekki skötuveislan næst ??? Allir að mæta á Kænuna til Jonna á Þorlák.
Já aðalfundur FT var haldinn föstudaginn 11 des á Kænunni, fundurinn var góður og gagnlegur. Margir góðir gestir komu og umræður og skoðannaskipti voru með líflegasta móti. Ég held að það sé framtíðin að halda fundinn á svona stað, borða saman og gefa félögunum færi á að eyða svolitlum tíma í að rifja upp skemmtilegar minningar og spjalla.
Mætingin var líka með betra móti svona miðað við undanfarin ár.
Pétur Behrens einn af stofnfélögum FT kom og rifjaði upp brot úr sögu félagsins við góðar undirtektir og vöktu gamlar myndir sem að hann sýndi feiknar kátínu fundarmanna.
Helga á Þingeyrum kom og kynnti knapamerkin og fór yfir ýmiss atriði sem þarft er fyrir reiðkennara að hafa í huga við kennsluna. Á næstunni koma fréttir af fundinum inná heimasíðu FT sem er tengill hér á síðunni.
.....nei nei þetta er ekki kvennfélag en þarna eru fjórar dömur á FT fundi.
Þórdís sæti ritarinn okkar, ég , Helga á Þingeyrum og starfsmaðurinn okkar Hulda Geirsdóttir.
Á sunnudaginn var svo brunað í Skáney erindið að færa litlu ,,ömmustelpunni,, jólagjöfina sína því að daman verður erlendis um jólin. Jólagjöfin var fjórfætt og meira að segja með fjögur horn, Ferningur hefur sem sé skipt um lögheimili og jafnvel nafn líka en nafnið Hreinn er afar vinsælt hrútanafn um þessar mundir. Og svo er bara að syngja hrúturinn Hreinn
Á mánudaginn fór ég svo í verslunarferð með hefðardömum og endaði svo á jólahlaðborði með skemmtilegu fólki. Takk fyrir frábært kvöld stjórnarfólk í FT.
Fundur í Fagráði í hrossarækt var svo á dagskrá þriðjudagsins góður og skemmtilegur fundur.
Dagurinn í dag var líka ljómandi góður langt komið að sortera kindurnar fyrir fjörið sem hefst eftir nokkra daga og ormalyf komið í rúmlega 400 kindur. Vonandi næst að klára það á morgun en þá stendur líka til að fá gervihrút með ,,kaffibrúsa,, í heimsókn.
Hún Astrid okkar fór líka í dag áleiðis til Danmerkur þar sem hún ætlar að eyða jólunum.
Góða ferð Astrid vonandi dreymir þig ekki eintóma sveitadrauma í danaveldi.
Mummi járnar og ríður út af miklum krafti og er það ekki aldeilis ónýtt fyrir okkur að fá hann í svona langt jólafrí. Ég ætti nú að vera duglegri að taka myndir í hesthúsinu og sýna ykkur hér á síðunni á næstu dögum. Svo styttist í að við bætum inn myndum af nýjum söluhestum.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir