04.11.2009 22:22
Er nú svolítið löt...........að blogga.
Þarna eru nokkrar af unghryssunum að njóta lífsins og hugsa til þess að það er bara ár þangað til byrjað verður að temja þær. Eins gott að standa sig..............
Ég er búin að vera löt að skrifa fréttir undanfarið en það eru svo sem skýriningar á því.
Verð að deila því með ykkur í trúnaði að það er bara alltaf brjálað að gera hjá húsfreyjunni.
Stundum hugleiði ég hvort að það væri ekki rétt að fara að fækka spennandi verkefnum sem að ég vil og verð að vasast í. En niðurstaðan er alltaf sú sama, ég vil og verð og við það situr.
Rjúpnaveiðarnar hjá okkar mönnum gengu bærilega um síðustu helgi þ.e.a.s þeir löbbuðu í góðu veðri út um allt fjall sáu einstaka rjúpu bregða fyrir og enginn þurfti þyrlufar heim.
En þar sem að þeir hyggjast borða rjúpur á jólunum er alveg víst að þeim veitir ekki af leyfilegum veiðidögum til að bjarga jólahamingju sinna fjölskyldna.
Mummi kom heim um helgina og tókum við dágóðan tíma í að fara yfir og spá í það sem tamningamannsefnin á Hólum hafa verið að læra að undanförnu.
Viðja litla fékk heiðurinn af tilraununum og tók þeim afar vel. Það er alltaf svo gaman að fylgjast með hvað krakkarnir eru að læra á Hólum. Vá hvað væri gaman að vera þar í skólanum.
Á sunnudaginn komu síðustu hryssurnar heim úr stóðhestagirðingum það voru þær Spóla og Tryggð sem að komu heim frá höfðingjanum Hlyni. Þær hafa ekki enn verið sónaðar en við vonum það besta. Hlynur varð eftir með tvær hryssur í girðingunni það var gaman að sjá hann og ástandið á honum var flott eins og við var að búast.
Í dag komu vinkonurnar úr Borgarnesi í sína árlegu heimsókn það er óhætt að segja að það er bæði gagn og gaman að fá þær í heimsókn. Takk fyrir daginn dömur ættum nú að hittast oftar.
Ég er búin að fara á tvo fundi um skólamál í þessari viku og er afar hugsi eftir þá en hef ákveðið að deila þeim hugleiðingum síðar.
Nú fer að styttast í að féð verði tekið á hús, hrútarnir komnir inn og hafa fengið þessa fínu herraklippingu og lömbin koma inn á næstu dögum. Síðan fara kindurnar að smá týnast inn og allt að komast í rólega rútínu. Þá verður farið að ríða út af alvöru.