27.10.2009 22:47
Eitthvað svo kindalegt.
Hér koma myndir frá rúningskeppninni í Búðardal, þarna er bjartasta von okkar Kolhreppinga í rúningi. Þetta er hann Þórður í Mýrdal sem að varð í öðru sæti í flokknum ,,minna vanir,, svo hér fyrir neðan er næsti ættliður.....................
...................Gísli bóndi í Mýrdal sem varð í öðru sæti í aðal keppninni eftir harða baráttu við Julio Cesar frá Hávarðsstöðum meistarann frá því fyrra.
Það var gaman að fylgjast með þessari keppni og mjög líklegt að fleiri verði með á næsta ári.
Í gær og í dag höfum við skoðað og yfirfarið hverja einustu kind, kannað hvernig lömbum hún hefur skilað og hvort að heilsufarið sé ekki ákjósanlegt. Þetta gerum við alltaf á haustin til að hafa sem besta yfirsýn og ganga úr skugga um að engin kind verði sett á vetur nema hún standist þetta tékk. Einnig er þetta gott tækifæri til að finna út hvaða kindur vantar enn af fjalli. Öll númer eru borin saman við bækurnar og þannig sést hvaða kindur eru óheimtar.
Á morgun fara svo síðustu lömbin og sláturskindurnar norður á Sauðárkrók. Alltaf svo gott þegar allt þetta sláturstúss er afstaðið.
Heimtur eru betri en í fyrra en samt vantar ennþá nokkra tugi af fjalli. Á næstu dögum set ég upp Tigergleraugun og tel saman hvað raunverulega vantar af fjalli.
Loksins er búið að laga ruglið sem var á síðunni en ég á enn eftir að bæta inn tenglum sem að duttu út. Verð að fara að gefa mér tíma til að dekra við síðuna og bæta meiri upplýsingum inn.