16.08.2009 23:22

Járningar og hagfræði úttekt í kartöflugarðinum heima



Þessir voru kátir og einbeittir þegar ég mætti þeim í léttri sveiflu útá vegi um daginn.
Fannar og Mummi.......................gaman saman.

Um helgina hefur verið járnað og  járnað og járnað meira. Svo að nú segir það sig sjálft að þau mál eru í mun betri farvegi en fyrir helgi.  Margir folar sem ekki hafa verið járnaðir fyrr eru nú komnir á járn og flestir bara verið mjög þægir í járningu.
Það hefur verið líflegt í hesthúsinu og nokkrir hestar hafa skipt um lögheimili og mál annara í skoðun. Í vikunni koma svo líklega einhverjar hryssur heim sem hafa verið hjá stóðhestum.
Alltaf svo spennandi að sjá hverjar hafa haldið og hvernig folöldin líta út eftir nokkra vikna dvöl annars staðar.
Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Þeytingur sem gerði allt eins og til var ætlast í sínu dagsverki.

Í kvöld ákvað ég að nú væri orðið tímabært að kanna uppskeruna í kartöflugarðinum (heima). Ég verð að taka það fram að garðrækt er ekki sérgrein mín þó svo að ég hafi alltaf látið mig hafa það að framkvæma einhver afrek þar. Er skemmst frá því að segja að kella rauk af stað með fötu og fork að vopni. Stakk upp nokkur kál og týndi þessar fínu kartöflur í fötuna. Fljóttlega gerði ég mér þó grein fyrir því að samkvæmt minni hagfræði væri ekki skynsamlegt að taka upp meira en sýnishorn. Það eru nefninlega meiri líkur á að uppskeran vaxi í garðinum en pottinum heima. Ég vona að þessi hagfræði reynist rétt og ég raunar treysti bara á það.............. svona er nú gott að vera bara sinn eiginn hagfræðingur og bera enga ábyrgð frekar en sumir aðrir. Bara bíða og vona að uppskeran verði mikil og stór.



Um helgina var hér fullt af veiðimönnum sem gerðu það bara býsna gott. Ég hef haft fregnir af nokkrum tuga fiska sem komu á land og nokkrum stórum og matarmiklum.
Það er gaman að núna er ennþá líflegt á tjaldstæðinu, stundum hefur allt verið búið eftir verslunnarmannahelgi.