14.08.2009 00:30
Snotra hugsar og húsfreyjan tuðar
Ekki trufla mig ég er að hugsa........................
Það var gott veðrið í Hlíðinni í dag já alveg snildar útreiðaveður. Logn, hlýtt og smá úði.
Dagurinn byrjaði með svolitlu fáti þar sem að ég hafði yfir hlaðið fyrstu klukkustundir hans ótæpilega. Það er nefninlega þannig að bókhald og reddingar taka alltaf 5 sinnum lengri tíma en ég held í upphafi. Hlutverkin voru líka full fjölbreytt fyrir hádegi gjaldkeri, símadama, þvottakona, sauðfjárbóndi og kokkur. En allt hafðist þetta af og maturinn var tilbúinn fyrir gestina, þvotturinn þveginn, síminn þagnaði og bréfin í póst. Eftir hádegi varð þetta skaplegra og ég varð bara ,,rólegur,, tamningamaður og ,,virðuleg,, húsfreyja.
Sem sagt góður dagur eins og þeir lang flestir eru.
Enn veiðist ljómandi í Hlíðarvatninu og þónokkuð margir hafa bleytt öngla þar undanfarna daga. Tjaldstæðin hafa verið mikið notuð og margir enn að njóta sumarsins.
Eins hafa margir lagt leið sína uppí Krakavatn og veitt bara nokkuð vel allavega sumir.
Flestir okkar veiðimenn eru fyrirmyndarfólk sem að gengur vel um landið en því miður eru alltaf svartir sauðir innanum. Kunningjar okkar sem fóru uppí Krakavatn í gær höfðu frekar slæma sögu að segja okkur af umgengninni við vatnið. Þar bar fyrir sjónir ýmislegt rusl og dót sem að alveg er bannað að skilja eftir á viðavangi. Gler og dósir, girni og plast svo að eitthvað sé nefnt. Það er alveg ótrúlegt að fólk geti borið með sér ýmislegt dót uppá fjall en þegar að einungis umbúðirnar eru eftir getur það ekki tekið þær með sér heim.
Þið sem eigið eftir að fara þarna upp endilega takið nú ruslið ykkar með heim það er svo leiðinlegt að þurfa að setja sig í tuð gírinn yfir því sem á að vera sjálfsagt.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir