30.07.2009 23:16
Léttur Glymur og Ansu áfram á Íslandi.........
Stundum er hreinlega svo mikið að gera að maður verður að flýta sér á milli staða.......á brokki..........................
Það var mikið riðið út hér í dag þrátt fyrir mikinn blástur. Enginn ferðahópur var hér í dag en það var afar fjölmennt og margir hestar sem fóru hér um hlaðið í gær. Einn hópur að fara yfir Klifsháls, annar fór Fossaleiðina og sá þriðji var að ríða kringum Hlíðarvatn.
Það hefur verið hefð til margra ára hjá góðum grönnum að koma ríðandi svokallaða Hringdalsferð. Í þessa ferð hafa farið jafnt ungir sem aldnir og ævinlega skemmt sér vel.
Takk fyrir komuna alltaf gaman að halda í góðar hefðir.
Einnig var afar gestkvæmt í gær bæði komu gestir að skoða hross og einnig til að líta á bændur og búalið. Sumir komu alla leið frá Spáni.
Í dag fór Létt undir hann Glym frá Skeljabrekku og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því. Svo er bara að bíða eftir henni Skútu sem að er enn óköstuð, faðirinn þar er Gaumur frá Auðsholtshjáleigu.
Á morgun fer hún Ansu okkar sem hefur verið hjá okkur í sumar hún ætlar að fara heim til sín til Finnlands. Hún hefur staðið sig með mikilli prýði eins og allir þessir góðu krakkar sem hér hafa verið. Við söknum hennar öll og vonum innilega að hún komi bara aftur til Íslands.
Takk fyrir skemmtileg kynni Ansu vonandi kemur þú sem fyrst aftur til okkar.
Nú nálgast ferðahelgin mikla óðfluga og allt orðið klárt hjá okkur að taka á móti fólki á tjaldstæðin. Svo er bara að krossa fingur og vona að veiðin verði ennþá góð um helgina.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir