24.07.2009 23:34
Vinnukonurnar í hundana og Dimman köstuð.
Á þessari mynd eru okkar góðu vinnukonur komnar í hundana í orðsins fyllstu merkingu.
Deila, Ansu, Þorri, Astrid og Ófeigur.
Dagurinn í dag fór nú ekki allur í það sem lagt var upp með í morgun. Það átti að keyra heim rúllur af miklum móð, girða og ríða út. Skemmst er frá því að segja að ekki urðu nú afrekin mikil í rúlluakstri, Claasinn okkar fíni tók sér veikindafrí í dag en verður vonandi kominn til heilsu á morgun. Girðingavinnan gekk vel og verður þessi líka fína girðing tilbúin á morgun. Hvert girðingarhólf hjá okkur hefur sitt nafn til að auðvelda sundurgreiningu en þar sem að þessi er ný er ég enn að velta fyrir mér hvað hún verði kölluð.
Mikið var riðið út í dag meðal annars byrjað á tveimur nýjum folum sem lofa bara góðu við fyrstu sýn. Eigendur tamningahrossa komu að líta á gripina sína og finnskar dömur komu og fóru á hestbak.
Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Glundroði sem að hún Ansu prófaði í fyrsta sinn.
Dimma kastaði í morgun og átti brúnstjörnóttan hest faðirinn er Sparisjóður minn. Nú verður húsbóndinn að leggja höfuðið í bleyti og ákveða hvert Dimman á að fara undir stóðhest og hvað nýji gripurinn á að heita.
Á morgun ætla ég að smella undir mig betri löppinni og fara í afmæli til stöllu minnar á suðurlandinu......................spennandi.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir