21.07.2009 21:32
Afmæli, ferðahópur og heyskapur.
Hún á afmæli í dag hún á afmæli í dag hún á afmæli hún Astrid hún á afmæli í dag innilega til lukku með 20 árin Astrid.
Á myndinni eru Astrid og Folda að spóka sig í blíðunni.
Það fór hratt lognið í Hlíðinni þennan daginn en sólin skein glatt og það var hlýtt og gott.
Í gær riðum við suður fyrir vatn og að Heggsstöðum á heimleiðinni tókum við svo á okkur krók og höfðum viðkomu í Draugagilinu og síðan til baka og heim. Þó svo að ég hafi verið búin að lofa blíðu stóðst það nú ekki alveg, lognið tók svolitlar rokur og var með smá leiðindi. En reiðtúrinn heppnaðist vel og vonandi voru allir ánægðir.
Ferðahópurinn lagði svo af stað norður í Húnaþing í dag reið héðan Fossaleiðina og að Kringlu. Takk fyrir frábæra viku Steinbjörn og félagar.
Heyskapurinn hefur gengið nokkuð vel undanfarið þrátt fyrir rokið, okkar vösku sveinar hafa séð til þess. Núna er verið að heyja á Vörðufelli og vonandi klárast það áður en að miðsumarshretið hans Einars Sveinbjörnssonar kemur.
Á morgun bruna ég austur að Akurey til að sækja hana Andrá mína til hans Þrists frá Feti.
Vonandi er hún orðin fylfull og þá læt ég mig dreyma um að það sé skjótt hryssa.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir