19.07.2009 23:07

Alltaf svo gaman...........



Já mamma mín auðvitað geri ég það....................................
Þarna eru mæðginin Þorri og Deila að ræða saman í góða veðrinu, sem er næstum alltaf í Hlíðinni. Ég gat ekki heyrt betur en að smalamennskur haustsins væru alveg að komast á hreint og verkaskiptingin væri að fara í gegn um síðustu umræðu.

Síðustu dagar hafa verið afar skemmtilegir þegar ég skrifaði síðast þá vorum við stödd með hestana í Tröðum. Í gærkveldi var svo riðið frá Tröðum í Hömluholt, fjörurnar voru æðislegar og ekki var nú dónalegt að njóta kvöldsólarinnar í blíðunni.
Í morgun riðum við svo frá Hömluholti í Kolviðarnes síðan afar skemmtilega leið upp hjá Höfða og fram að Heiðarbæ. Enduðum svo með allan flotann hér í Hlíðinni seinni part dagsins. Ég var að rifja það upp á leiðinni frá Höfða hvað það var gaman og spennandi að fara þessa leið þegar ég var lítið stelpuskott. Þá var þessi leið óralöng og spennandi ævintýri frá upphafi til enda. Og það sem meira var maður varð bara alveg rígfullorðinn við að fara þessa leið. Það var kostur þá, en núna??? Jú maður yngist um mörg ár við að fara þessa skemmtilegu leið með góðu fólki.
Ferðin hefur gengið mjög vel reksturinn verið rólegur og hestar og menn notið veðurblíðunnar. Auðvitað hefði verið gaman að hafa allan flotann með en það verður í næstu ferð. Eins kom ég ekki við hjá öllum sem að ég er vön að koma við hjá á ferðum mínum um þessar slóðir. En það verður örugglega næst ekki spurning.
Þegar komið var í hús í kvöld var mér litið í spegil og sá þá mér til mikillar ánægju að ég hafði tekið mjög ,,góðan,, lit í dag. Gamanið kárnaði þó þegar ég smellti mér í sturtuna og kom ég heldur fölleit undan henni. Það er ekki tekið út með sældinni að reyna að vera pæja.
Á morgun er svo á dagskrá að ríða í kringum Hlíðarvatn og hefur húsfreyjan lofað blíðu sem að vandræðalegi veðurfræðingurinn á Rúv staðfesti svo í kvöldfréttunum. Allt klárt.
Fyrirmyndarhestur dagsins...................æi get ekki gert uppá milli.

Snör var sónarskoðuð á laugardaginn hún reyndist fylfull við honum Ramma frá Búlandi. Björgvin dýralæknir var næstum ,,öruggur,, með að þetta væri mósótt hryssa eins og til stóð..............maður má nú láta sig dreyma. Nú er bara að bíða og sjá hvað kemur næsta vor.

Fjöldi fólks var á tjaldstæðinu um helgina og fór nær allt vel fram. Þó hafa einhverjir haft óþarfa orku á sínum snærum og ákveðið að nýta hana í skjóli nætur til að vinna
skemmdarverk. Urðu nokkrar heyrúllur fyrir barðinu á þessum aðilum sem hafa eytt kröftunum í að velta þeim til og jafnvel alla leið ofan í flæðarmál.
Áhugamál manna eru misjöfn sumir eyða orkunni á jákvæðan hátt aðrir vanda minna til verka og gleyma jafnvel alveg að hugsa.....................áður en þeir framkvæma.