30.05.2009 23:16
Góðar stundir og áburðardreifing.
Þessi mynd var tekin á útskriftardegi Háskólans á Hólum þarna eru Mummi á Fannari og Franzi á jörpu.
Við áttum frábæran dag með skemmtilegu fólki, fyrst í Lindartungu svo á Rauðamel. Tilefnið var minningarstund um systkinin frá Syðri Rauðamel. Það var svo gaman að rifja upp gamla daga, sjá gömul myndbönd og myndir en síðast en ekki síst hittast og spjalla.
Mummi og Jón Ben byrjuðu að bera á túnin í dag og afrekuðu eins og við var að búast alveg helling. Fara vonandi langt með áburðardreifinguna á morgun ef að veður leyfir.
Ég bíð og bíð eftir fleiri folöldum en án árangurs enn sem komið er. Kolskör mín er samt alveg að springa. Á næstu dögum vindum við okkur svo í að fortemja veturgömlu tryppin pínulítið áður en við sleppum þeim í fjallið. Já og auðvitað gelda það sem gelda á.
Undan farna dag hafa staðið yfir miklar járningar og eru flest hrossin að verða bara nokkuð fín. Dömurnar Astrid og Ansu hafa svo verið að snyrta og pússa.
Bræðurnir Ófeigur og Þorri hafa í ýmsu að snúast þessa dagana, þeir eru svo ljómandi hlýðnir að þeir bíða bara fyrir utan húsið heima þegar að við förum í hesthúsið. En landhelgi þeirra er nú samt alltaf að stækka pínu lítið. Fyrst fóru þeir ekki út fyrir mölina í hlaðinu, síðan var það radíusinn kringum húsið í passlegri fjarðlægð og núna eru landamærin afleggjarinn heim að húsinu og hins vegar vegurinn. En sumir skreppa stundum í útrás þó svo það hljómi nú ekki vel þessa dagana.
Samkomulagið hjá bræðrunum er svona upp og ofan því þarf gæslumann við matardallinn þegar snæddur er morgunverður í hundalandi. Annars er voðinn vís. Það var góð skemmtun að sjá þá bræður borða pylsur um daginn. Áttæknin var þannig að þeir tóku pylsurnar og borðuðu eins og við spakettí, sogið, rennt niður og tuggið sem minnst.
Við eru bara nokkuð sátt við þá bræður og erum þeirrar skoðunnar að við getum hugsanlega fengið góða smalahunda ef að við klúðrum ekki uppeldinu.
Mikil ábyrgð sjáið þið til.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir