08.05.2009 22:44

Vonandi verður þetta snjóléttur sauðburður.




Voff, voff... hættu, hættu Gosi þú verður skítugur þetta er alveg bannað.................

Ég verð nú að játa að snjórinn sem var á jörðinni í morgun vakti ekki sérstaka lukku í Hlíðinni. Og því síður rokið og kuldinn sem var í allan dag, en þar sem ég er í eðli mínu óhóflega bjarsýn settist ég niður í ,,hugsistólinn,, minn og fór yfir allt það jákvæða sem væri í vændum. Gott veður, fullt af lömbum, glæsileg folöld, mikil spretta, ný ríkisstjórn? Aaaa er svolítið efins um að það síðasta verði jákvætt. En best að vera til friðs og vona það besta.

Ferðin norður að Hólum hjá okkur í stjórn Félags tamningamanna heppnaðist vel og fundurinn var góður. Við skoðuðum aðeins hvað nemendurnir voru að gera og sáum að það voru allir að setja sig í gírinn fyrir lokaprófin í næstu viku. Mummi smellti sér aðeins á bak Þríhellu fyrir mig og leist mér bara vel á hana. Hún er öll að koma til og vonandi að meðferðin hjá Sússí dýralækni virki vel.

Það voru mörg hross járnuð í Hlíðinni í dag og þó nokkuð riðið ,,út,, inni og reyndar aðeins úti líka. Verð samt að játa að skilyrðin til þess voru ekki góð og á köflum varasöm.
Fyrirmyndarhestur dagsins var skemmtilegur Hróðssonur sem er algjör töffari en með afar lítið hjarta. Hann er rétt að byrja sinn tamningatíma en lofar mjög góðu og verður flottur ef að vel tekst til.
Við erum farin að fylgjast vel með hryssunum og bíðum spennt eftir fyrsta folaldinu.
Sauðburðurinn fer örugglega að bresta á af fullum þunga svo það er skynsamlegt að fara að halla sér.

Á morgun verður vonandi betra veður og allt í blóma.