27.04.2009 21:20

Það er blessuð blíðan.






Mætti þessum köppum á förnum vegi í gær og skaut einu myndaskoti á þá.
Mummi á Dregli frá Magnússkógum og Skúli á Freyju frá Lambastöðum.

Það var snildarblíða í dag og vorið svo sannarlega komið, fuglasöngur og sprettulykt í lofti.
Gaman að ríða út á svona degi það verður einhvern veginn bara allt gaman á svona dögum.

Ég var í fréttafríi í dag var búin að hlusta á allar fréttir sem ég komst yfir í nokkrar vikur. Og viti menn mér leið bara alveg bærilega, kannske verður maður bara bjartsýnni af því að hlusta á fuglasöng en framboðssöng. Annars er ég bara nokkuð sátt eftir kosningarnar svona miðað við allt og allt. Að sjálfsögðu vöktum við og biðum eftir því hvernig úrslitin yrðu. Það er alltaf svo gaman að bíða eftir kosningaúrslitum. Bíð spennt eftir því að sjá hver framvindan verður í stjórnarmyndun, verð sennilega ekki í löngu fréttafríi.

Ég var að skoða dagbókina mína í dag og komst að því að óðum styttist í að hryssurnar fari að kasta. Sú fyrsta gæti hæglega kastað í kringum mánaðarmótin og svo hver af annari og sú síðasta væntanlega í ágúst. Svolítið seint en þess virði að bíða þegar höfðingjar eiga í hlut.

Núna styttist líka í sauðburðinn, en þá hefst nú fjörið fyrir alvöru, vona bara að veðrið verði gott svo að allt féð geti farið út sem fyrst. Mörg ár síðan ekkert lamb hefur verið fætt á þessum tíma vors en nú fer að koma að því. Læt ykkur frétta þegar að konungshjónin verða fædd.

Þá er það fyrirmyndarhestur dagsins í dag sem var hún Máney Illingsdóttir lipur,litfögur og alltaf að verða samvinnuþýðari.