11.04.2009 21:18

Uppsafnaðar fréttir.



Þetta er hann Vetur ,,okkar,, sem nú býr í Borgarnesi.

Úff ...það er búið að vera nóg að gera á öllum vígstöðum hér í Hlíðinni.
Hann Jan okkar frá Slóveníu fór frá okkur á mánudaginn eftir að hafa verið hjá okkur meira og minna síðan 26 febrúar s.l duglegur og skemmtilegur strákur sem vonandi kemur aftur til Íslands seinna. Og hver veit nema hann komi bara eftir að hafa klárað  læknifræðina og skelli sér á Hóla?  Jan takk kærlega fyrir skemmtilegan tíma sjáumst vonandi sem fyrst.

Á þriðjudaginn síðasta komu góðir gestir þau Tommi og Tóta vinir okkar, við áttum saman notalegan dag  skoðuðum hrossin og spjölluðum.
Á miðvikudaginn kom svo Mummi heim frá Hólum og sendi á undan sér tvo hesta sem við sóttum í Borgarnes. Annar var hann Vinningur minn sem nú er kominn heim og hefur heldur betur bætt sig, hitt er hann Dregill sem skrapp bara heim til okkar um páskana og fer sennilega aftur norður eftir páska.
Við erum svo heppin að fá hann Lalla okkar lánaðan um páskana, það gerir okkur þremur auðveldara að sinna hrossum frá morgni til kvölds.
Og nýtingin í hesthúsinu hefur verið hreint frábær alla dagana. Happafengur þessir strákar Mummi og Lalli, verst hvað páskafríið líður fljótt.
Margir góðir gestir hafa litið inn, einnig fórum við í afmælisveislu í gamla bæinn í gær hann Sveinbjörn átti nefninlega afmæli og af því tilefni var slegið í pönnsur og ýmislegt fleira góðgæti. Best er þó alltaf heimabakaða hveitibrauðið hjá henni Stellu.
Svo í dag var brunað suður að Miðfossum og þeir feðgar Mummi og Skúli tóku þátt í töltkeppni Skúli með Gosa og Mummi með Dregil, það gekk bara nokkuð vel og Skúli og Gosi komu heim með medalíu.

Bræðurnir Ófeigur og Þorri eru orðnir unglingar og eins og þið vitið fá unglingar gjarnan unglingaveiki. Þeir eru t. d alveg hættir að geta borðað úr sömu skál ef að þeim er boðið uppá það er nær alveg víst að þeir endi í hörku slag. Þeir fá ekki enn að fara í fjárhúsin og þeirra heimur nær ekki nema ákveðin radíus frá húsinu. Það gengur vel ennþá og eitt flaut nægir til að þeir þjóti heim að dyrum, hvað það verður lengi er svo spurning en er á meðan er.

Nokkrir dagar eru nú frá því að ég hef skrifað hér á síðuna og hafa fyrirmyndarhrossin því safnast upp í nokkra daga. Mig langar samt að nefna nokkur fyrst er það hún Kvika Hamsdóttir sem er alltaf að verða betri, síðan er það hann Vinningur minn sem er nýkominn heim og hefur bætt sig helling, Erla Piltsdóttir er alltaf að koma á óvart og að lokum verð ég að nefna einn frekan Víkingsson sem nú er að átta sig á gangi lífsins.