28.03.2009 23:33
Skemmtilegir Sörlamenn og ýmislegt fleira.
Feðgarnir Gosi og Hlynur frá Lambastöðum stingja saman nefjum.
Góður dagur að kveldi kominn. Fengum góða heimsókn frá skemmtilegum strákum úr Hestamannafélaginu Sörla í Hafnarfirði í dag. Þeir félagarnir voru í ,,menningarferð,, um vesturlandið og komu við og tóku út bústofninn. Við gátum sýnt þeim helling af hrossum auk þess bæði kindur og hænur.
Getur verið gott að bjóða uppá fjölbreytni, er það ekki ,,inn,, í dag?
Gaman að fá svona góða gesti í heimsókn hressir og kátir. Takk fyrir komuna strákar.
Á fimmtudaginn fór ég á fund í Fagráði í hrossarækt góður og skemmtilegur fundur, ýmislegt sem er í farvatninu þar. Þið getið lesið allar fundargerðir Fagráðs á bondi.is þar sem þær eru allar undir hnappnum hrossarækt.
Um kvöldið var svo samhæfinga og endurmenntunarnámskeið gæðingadómara sem ég mætti líka á. Var komin heim rétt um miðnættið syfjuð og þreytt eftir langan fundadag. Stundum er síminn skemmtilegur og góðir vinir hjálplegir við að halda mér vakandi.
Það eru forréttindi að reka tamningastöð í sveitinni það gerir marga hluti sem mér finnast skipta mjög miklu máli mögulega. Sem dæmi get ég nefnt að í gær settum við öll tamningahrossin út í nokkuð stóra girðingu þar sem þau gátu hlaupið og leikið sér að vild í nokkurn tíma. Það skal tekið fram að veðrið var mjög gott og þetta gerum við aldrei nema svo sé. Fátt finnst mér ömurlegara að sjá en þegar fólk lætur reiðhestana standa tímunum saman í litlum gerðum í misjöfnu veðri og telur sér trú um að það sé mjög holt. Væri það sjálft kannske til í að skokka og svitna heilmikið bíða svo á tröppunum heima eða útí garði í svona einn til tvo tíma til að njóta útiverunnar? Ég er ekki viss en finnst það ótrúlegt.
Þegar við svo settum hrossin aftur inn eftir þessa góðu útiveru voru þau afslöppuð og ánægð búin að leika sér og njóta þess að fá útrás án þess að við hefðum eitthvað um það að segja. Gott fyrir líkama og sál.
Í gær fórum við í Lyngbrekku á svokallað boðsball sem þetta árið var í boði Hraunhreppinga. Þarna áttum við góða kvöldstund frábær matur og skemmtiatriði einnig er alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk. Heppnaðist í alla staði vel.
Takk fyrir það Hraunhreppingar.
Jan vinur okkar kom aftur ,,heim,, í kvöld hefur verið í heimsókn hjá Benna Líndal og Siggu. Hann fór með Benna norður að Hólum þar sem að Mummi sýndi honum skólann, aðstöðuna og hrossin. Ég gat ekki betur heyrt í kvöld en að læknanámið hjá honum ætti orðið undir högg að sækja.
Bíllinn minn hefur átt við heilsuleysi að stríða undan farið og tók sér far með Hrannari frænda mínum í bæinn. Veit ekki hvort að bíllinn sé að hafa vit fyrir mér og kyrrsetja mig heima. Kemur í ljós en hann er að mínu mati svona rétt ,,tilkeyrður,, greyið.
Fyrirmyndarhestur dagsins var hann Gosi kemur manni alltaf í betra skap þessi elska.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir