02.03.2009 23:20

Ein vísa á dag kemur skapinu í lag.


Bókhaldið átti megnið af huga mínum í dag launaútreikningur, virðisauki og reikningarnir. Og vitið þið hvað ? það er alltaf gott veður um mánaðamót það finnst mér að minnsta kosti þegar ég sit inni við tölvuna. Hef litið öðru hverju út um gluggann og öfundað þá sem voru að ríða út í dag.
Var aðeins í tölvupóst sambandi við félaga mína í Fagráði í hrossarækt í dag  m. a vorum við að skiptast á fréttum af veðrinu hvert hjá öðru. Hjá mér var blíða en bylkóf hjá hrossaræktarráðunautnum í framhaldi af þessum tíðindum kom vísa frá bóndanum á Þóroddsstöðum Bjarna Þorkelssyni.

Er Guðlaugur í blindum byl
ber sér milli élja
Sigrún læst í sumaryl
sólardaga telja.

Spurning hvort að fundagerðir Fagráðs fara að vera í bundnu máli?


Ég hef frá byrjun reynt að koma því inn hjá Ófeigi og Þorra að þeir séu vinnuhundar en ekki gæludýr. Þetta hefur tekist nokkuð vel meira að segja svo vel að þeir taka orðið þátt í þó nokkrum verkum. Húsfreyjan stundum svolítið vanþakklát við þessa dugnaðarforka.  T. d verður hún að hafa hraðar hendur við að setja þvottinn í þvottavélina svo að þeir verði ekki á undan henni að ganga frá honum. Smá meiningar munur hjá okkur ég vil þvo og þurrka þvottinn ganga síðan frá honum á sinn stað. Þeir vilja spara tíma og ganga frá honum beint uppúr óhreinatauskörfunni.

Það kom enginn frambjóðandi til mín í dag svo að ég hef bara velt fyrir mér hvað væri nýtt við Jón Baldvin? Og hvort það væri ekki ljótt að vera með Sleggjudóma?