01.03.2009 21:53
Sunnudagurinn 1 mars.
Núna er ég grútsyfjuð en ætla samt að segja ykkur hvað ég hef verið að sýsla að undan förnu.
Í gærmorgun var frábært veður sem að við nýttum til þess að skoða og stöðumeta nokkur tryppi. Það fer þannig fram að tryppið er prófað og síðan skoðum við og ræðum hvernig staða þess er miðað við fyrirfram ákveðið skipulag. Þá kemur í ljós hvað þarf að bæta og hverju á að breyta til að ná sameiginlegu takmarki okkar með öll tamningahross, gera það besta úr hverjum einstaklingi óháð ætt og uppruna. Meðan á þessu stóð flaug tíminn eins og venjulega hér í ,,Hlíðinni,, sem þýddi að þegar góðir gestir birtust um kl 14 vorum við að borða hádegismatinn. Mikil óreiða á matmálstímum hjá húsfreyjunni þessa dagana.
Eftir þessar vangaveltur brunaði Mummi áleiðis í bæinn til að dæma svellkaldar aðþrengdar eiginkonur og aðrar heiðursdömur sem kepptu í Skautahöllinni í Laugadalnum.
Bíllinn hans ákvað að fara ekki lengra en að bensíndælunni við Hyrnuna í Borgarnesi. Þar leit um tíma út fyrir að hann væri ,,game over,, sem hækkaði blóðþrýsting dómarans um ríflega helming. Sem betur átti hann góða að í Borgarnesi og leystust málin þannig að Mummi brunaði á lánsbíl í höfuðborgina og bjargvætturinn fékk frúnna til að draga eðalvagn Mumma heim til sín. Niðurstaða málsins Mummi náði í tæka tíð á mótið og bílnum battnaði eftir smá yfirlegu. Takk fyrir þetta kæru vinir.
Við fórum í góðum félagsskap að horfa á úrslitin hreint frábærir hestar og flinkar konur.
Hún Von vinkona okkar fór heim í dag frábært gæðingsefni sem nú hefur lokið sýnum fyrsta kafla í náminu að læra til gæðings. Þvílíkt eðaltölt sem hún bauð uppá alveg óumbeðið.
Skarðið fylltist strax með bráðskemmtilegum grip sem mættur er í fitubrennslu.
Fyrirmyndarhestur dagsins er hún Von eðaltöltari.
Seinni partinn skrapp ég svo á fund í Borgarnes til að skoða frambjóðendur. Skemmtilegur fundur og nokkrir afar álitlegir kostir í boði. Spennandi kosningabarátta er hafin.
Ófeigur og Þorri hafa fengið fjölmörg aðdáendabréf á netfangið mitt og þakka þeir hér með fyrir þau. Annars eru þeir komnir með ný nöfn sem varla geta talist prennthæf en læt þau flakka hér í trúnaði. Hér á heimilinu eru þeir nefndir dúettinn ,,kúkur og piss,, Þið getið ykkur svo til af hverju? En þeir eru samt skemmtilegir.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir