22.02.2009 20:29

Salómon notar Porche og konubolludagurinn.




Salómon hefur einfaldan og látlausan smekk því velur hann Porche til að gá til veðurs.

Í dag byrjar Góan sumir kalla það konudaginn en hjá mér eru allir dagar konudagar svo þetta var bara venjulegur dagur. Góður Góudagur.emoticon

Í gær fór ég inní Búðardal að dæma vetrarmót hjá þeim Glaðsmönnum, gott mót og margir góðir hestar. Skemmtilegt þegar að vetrarmótin eru ekki bara töltmót heldur líka keppt í fjórgangi, um að gera að nýta ferðin þegar að fólk þarf að koma langt að eins og er hjá mörgum hestamannafélögunum á landsbyggðinni. Leit við hjá góðum vinum og skoðaði í nokkur hesthús. Alltaf gaman að koma í Dalina.

Einn höfðingi fór úr hesthúsinu í dag og um leið kom ný dama sem er nú öllu fyrirferðameiri en mjög spennandi. Hestar með stórbrotinn persónuleika eru alltaf heillandi.
Tveir vaskir Skagfirðingar komu í heimsókn til okkar í gær, gistu í nótt og tóku út bændur og búalið í dag. Við sýndum þeim nokkur vel valin spor á völdum gripum áður en þeir smelltu sér norður aftur.
Takk fyrir komuna drengir.

Við vorum boðin í ,,bollukaffi,, uppí ,,efra,, um miðjan daginn, ljómandi fínt að taka svona forskot á sæluna. Ég var að rifja upp skemmtilegar minningar frá því ég var ung (yngri en í dag emoticon ) og notaði bolluvönd. Forlátan bolluvönd framleiddan af henni Siggu sem var vinkona Fríðu frænku minnar. Fríða sá alltaf um að við frændsyskini hennar ættum svona verkfæri. Á bolludagsmorgun dreif ég mig á fætur til að ná örugglega að flengja alla á heimilinu. Mér hafði verið talin trú um að ef að ég næði þessu ekki þá væri ekki víst að ég fengi bollu. Seinna komst ég að því að þetta væri óþarfa fyrirhöfn og ég gæti alveg fengið bollu án teljandi vandræða. En bolluvöndinn fallega á ég enn.

Takk fyrir allar heimsóknirnar í vefgluggann okkar og munið endilega eftir að skrifa í gestabókina.