11.02.2009 20:59

Létt(ir) fundir og fé.




Myndin sem birtist með blogginu mínu í kvöld er af henni Létt frá Hallkelsstaðahlíð, hún er 1 verðlauna hryssa undan Randver frá Nýja-Bæ og Sunnu frá Hallkelsstaðahlíð. Létt hefur átt tvö afkvæmi Léttfeta sem er geðþekkur 4 vetra foli sem varð til með frjálsum ástum í annari sveit þegar Létt var ung og haldin mikilli þörf fyrir útrás. Hennar útrás varð sem sagt til góðs svona þegar reiði eigandans var frá. Hún er því ekki raunverulegur útrásarvíkingur nútímans. Hitt afkvæmið er hann Léttlindur fallega skjóttur foli undan Hróðri frá Refsstöðum. Létt er núna fylfull við Arði frá Brautarholti.

Þessi vika hafði uppá heila 3 langa fundi að bjóða sem er aldeilis nóg þegar frúin vill vera heima að ríða út. En þetta voru alveg ágætir fundir og sumir bara nokkuð skemmtilegir fyrir utan það að vera gagnlegir. Alltaf gaman að hitta skemmtilegt fólk.

Allt gott að frétta úr hesthúsinu en rosalega var nú kalt að ríða út í dag frost og töluverð gjóla, var samt fínt á móti sólinni. Inni aðstaðan okkar í hlöðunni kom sér líka vel í dag eins og marg oft áður. Fyrirmyndarhestur dagsins var Kollhúfa hún hélt hita á Helga í frostinu í dag.emoticon

Ófeigur og Þorri stækka og stækka og stækka veit ekki hvar þetta endar, eru farnir að sjá og labba. Þó er göngulagið ekki sérlega reffilegt ennþá, mynnir helst á menn sem eru alveg að verða búnir að skemmta sér nóg.

Ný frétt......

Á mánudaginn fór sveit vaskra manna í Bakkamúlann og fann þrjár kindur. Kjartann á Dunk fékk kind með lambi og við fengum eina vetur gamla kind.
Allar kindurnar litu vel út miðað við árstíma. Ekki sem verst að heimta á þessum tíma betra seint en aldrei. Takk vösku sveinar.