27.01.2009 21:07
Sorg og gleði í hundaræktinni.
Það er búið að vera nóg um að vera undanfarna daga í Hlíðinni, sumt skemmtilegt annað leiðinlegt.
Litlu hvuttarnir hennar Deilu voru svolítið bráðlátir að komast í heiminn, en þeir áttu eins og áður sagði að fæðast í kringum 3 febrúar. Á sunnudagsmorguninn ákvað Deila að vera heima þegar við fórum í hesthúsið. Það er mjög óvenjulegt en þar sem hún var orðin mjög þung á sér höfðum við ekki áhyggjur af henni töldum bara að hún vildi hafa það náðugt. Þegar við komum heim í hádegismat þá var fæddur einn hvolpur síðan hafa fæðst fjórir. En því miður lifa bara tveir af þeim, skýringin sennilega sú að hvolparnir hafa fæðst hálfum mánuði fyrir tímann.
En nóg um það þessu verður ekki breytt.
Í þvottahúsinu eru núna tveir sprækir og fínir upprennandi smalar sem dafna vel þrátt fyrir bráðlætið að komast í heiminn. Annar heitir Ófeigur en hin hefur ekki enn fengið nafn.
Við vonum að þeir séu komnir úr hættu og hafi bara það markmið í lífinu að verða ofursmalar.
Snotra er mjög upptekin af þessum nýju gripum og með sérstöku leyfi Deilu fær hún að þefa og þvo sé til mikillar ánægju. Sjarminn fer sennilega af þessu þegar hvuttarnir fara að hanga í skottinu hennar og heimta endalausan leik.
Síðustu dagar hafa boðið uppá blíðu og frábært reiðfæri hér í Hlíðinni það hefur verið notað óspart og því ekki gefist tími til ritsmíða. Mummi kom heim um helgina og var liðtækur í hesthúsinu eins og venjulega. Sýndi okkur smá sýnishorn af því sem hann er að læra núna á Hólum. Vá væri ekki frábært að vera ungur (yngri) og vera á Hólum?
Fyrirmyndarhestur dagsins var Erla Piltsdóttir alltaf að verða betri og betri.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir