25.01.2009 00:22

Ísland í dag og tíkurnar....



Salómon fyrirsæta.

Það er búið að vera vor í dag hiti og rigning, hálka og drulla er það ekki venjulegt vertarvor?
Í morgun bauð ég stóðhestunum uppá að vera úti í gerði að gera ,,ekkert sérstakt,, þessu góða boði mínu tóku þeir heldur fálega, ráfuðu um tóku smá hopp og skopp og komu svo heim að dyrum. Þegar ég opnaði dyrnar var beðið með óþreyju eftir því að komast inn úr rigningunni og sem betur fer hafði engum dottið í hug að velta sér. Þeim líkaði sem sagt ekki þetta vetrarvor því venjulega eru þeir ekki tilbúnir að fara inn þegar kallið kemur.

Þó nokkur endurnýjun var í hesthúsinu í dag, Dugur vinur minn Dynsson setti undir sig betri fótinn og tók sér far í höfuðborgina þar sem hann ætlar að vera fyrirmyndarhestur.
Í hans pláss kom svo ung hryssa sem er að byrja sitt nám í reiðhestafræðum, einnig kom í hesthúsið garpur sem hefur beðið á ,,hliðarlínunni,, um nokkurt skeið.

Í dag fengum við skemmtilegt bréf frá vinkonu okkar í Svíþjóð sem á tvo hesta frá okkur.
Hún er að spá í að heimsækja okkur í sumar og finna sér nýja arftaka þeirra hesta sem hafa verið hennar reiðhestar síðustu ár. Annars var aðal efni bréfsins spurningar um ástandið á Íslandi. Fréttirnar sem hún hafði úr fjölmiðlum úti voru hreint ekki glæsilegar, kreppa, borgarstyrjöld og endalaus mótmæli. En þetta er kjarkkona og ætlar samt að koma.

Hef verið afar hugsandi varðandi þennan pólitíska glundroða sem tryllir allt samfélagið þessa dagana. Veikindi leiðtoga beggja stjórnarflokka eru sorgleg og vonandi ná þau fullri heilsu sem fyrst. En langt gengur fólk til að halda völdum, getur verið að völdin séu heilsunnar virði? Ég held ekki, en ég bý líka í fjöllunum. Annars er það ljóst að það er bráð óhollt að vera ráðherra í fljótu bragði man ég eftir fjórum nú á síðustu árum sem veikst hafa meðan þeir gengdu embætti. Skrítin tilviljun eða kannske ekki tilviljun? Það gífurlega álag sem fylgir svona embættum rífur greinilega í og potar í veika punkta.
Pólitíkin er skrítin tík og nær hjá mér að fylgjast með okkar tík sem heldur áfram að blása út.