21.12.2008 15:24
Verið velkomin!
Komið þið sæl og verið velkomin í litla vefgluggann okkar í Hallkelsstaðahlíð.
Hér mun ég á næstunni fjalla um það sem efst er í huga hverju sinni og reyna með því að gefa ykkur innsýn í lífið í sveitinni hjá okkur og þær vangaveltur sem fram fara.
Hugmyndin um að opna heimasíðu hefur verið lengi að brjótast um í mínum kolli en er nú orðin að veruleika. Við höfum notið frábærrar aðstoðar Tómasar Jónssonar grafísks hönnuðar sem á og rekur fyrirtækið Kviku sem er auglýsinga og hönnunarstofa. Tómas hannaði merkið okkar sem við erum mjög stolt af. Ekki verra fyrir fólk eins og okkur að þau hjónin Tómas og frú eru mikið hestaáhugafólk. Án hans hjálpar værum við örugglega enn að hugsa. Takk Tommi og Tóta.
En að öðru, síðustu vikur hafa verið annasamar í Hlíðinni og í mörg horn að líta. Haustið einkenndist af kindastússi og smalamennskum eins og alltaf en þó allt samtvinnað hestunum.
Í haust hóf Mummi nám á hrossabraut Háskólans á Hólum og þar með hefur engin starfsemi verið í hesthúsinu okkar á Kjóavöllum. Við gamla settið fylgjumst með og reynum að kíkja í bækurnar þegar hann kemur heim í frí. Alltaf svo spennandi að sjá eitthvað nýtt í hestamennskunni.
Um miðjan nóvember rákum við stóðið heim og tókum folaldshryssurnar og settum þær í girðingu heima á túni. Þær fengu sér dekur og var byrjað að gefa þeim fljótlega. Veturgömul tryppi og ,,sparihross,, voru svo sett í annað hólf og litlu síðar var farið að gefa þeim líka. Og nú er byrjað að gefa öllum hestum í Hlíðinni.
Inni voru svo tamningahross og smalahross sem staðið höfðu í ströngu í haust. Í byrjun desember var haldin folaldasýning í Söðulsholti þangað fórum við með nokkur folöld og gerðum bara nokkuð góða ferð. Snekkja litla Glotta og Skútudóttir gerði sér lítið fyrir og vann hryssuflokkinn, einnig völdu áhorfendur hana sem glæsilegasta grip sýningar. Léttlindur Hróðs og Léttarson varð svo í 4-5 sæti í hestaflokknum.
Þessa dagana fjölgar ört í hesthúsinu og allt að fara á fulla ferð þar. Það er alltaf jafn gaman að fá hestana inn, heilsa uppá góða vini og kynnast nýjum sem eru að byrja í sínu námi tamningunni.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir