07.06.2020 22:06

Sauðburðarfréttir með dass af góðum minningum.

 

Það er orðið býsna langt síðan ég hef smellt fréttum hingað  inná síðuna en nú skal úr því bætt.

Um þessar mundir er sauðburður og allt það stúss sem honum fylgir að klárast.

Sauðburðurinn gekk frekar vel en þó er alltaf eitthvað sem maður vildi hafa betra. 

Frjósemi var með allra besta móti og á köflum eiginlega óhófleg  að mínu mati.

Vænleiki lambanna var mikill þetta vorið en þrátt fyrir það gekk burðurinn frekar vel.

Sauðburðurinn gekk hratt fyrir sig og á einum sólarhringnum báru 90 kindur og á þeim næsta 83.

Já það var gott að hafa frábært aðstoðarfólk þá sólarhringa sem kunnu réttu handtökin og þekkja vel hvernig heimamenn vilja hafa hlutina.

Eins og áður vorum við einstaklega heppin með aðstoðarfólk. Það er hreinlega ómetanlegt að fá þessa snillinga með okkur og svo er ekki verra þegar nýjir bætast í hópinn og standa algjörlega undir væntingum.

Takk fyrir alla hjálpina þið vitið hver þið eruð.

Gróðurinn hefur heldur farið hægt af stað og lengi vel var frost á nóttunni sem hægði á öllu. Mikill snjór er ennþá í fjöllunum og mikið má nú vera milt sumar ef að allir skaflarnir eiga eftir að hverfa í sumar. Úthaginn var mjög seinn til og fyrsti fjárhópurinn sem sleppt var uppfyrir kom með hraði aftur heim að girðingu.

Já geldfé og hrútar sem farið var með suður á Hafurstaðatún í rúllu létu ekki bjóða sér slíkan aðbúnað og settu hraðamet heim að hliði. 

Eftir síðustu rigningu og hlýnandi verður síðustu daga hefur heldur dregið úr barlómnum og fleiri og fleiri kindur telja fjallið ásættanlegt.

Enn er þó dágóður hópur á túnunum inní Hlíð og heilar 14 kindur inni, tvær óbornar og hinar undir eftirliti af ýmsum ástæðum.

 

 

 

Hér gefur að líta sýnishorn af Hlíðinni en þessi mynd var tekin uppúr miðjum maí.

Túnin græn, úthagi gulur, snjór í fjöllum og Hlíðarvatn í hárri stöðu.

 

Það eru mög handtökin sem þarf að framkvæma á stóru sauðfjárbúi t.d eru þau ansi mörg þegar sleppa á út allri hjörðinni.

Ég var ansi ung þegar ég fylgdist með hverju handtaki þegar markað var á vorin og átti þá þann draum heitastan að fá að marka.

Eftir margra ára suð fékk ég að marka fyrsta lambið og tókst það bara bærilega.

Æfinguna hafði ég fegnið við að ,,marka,, bréfmiða sem að Lóa frænka mín hafði klippt út.

Miðana bjó hún til úr pappir sem að Tíminn það gamla góða málgagn var pakkað inní þegar það var sent áskrifendum. 

Ég átti markaskrá sem sýndi öll mörkin og undir styrkri stjórn Einar heitins móðurbróður míns lærði ég þau og markaði bréfeyru.

Það voru hinsvegar Ragnar og Sveinbjörn móðurbræður mínir sem að allajafnan mörkuðu flest lömbin.

 

 

Þarna er Ragnar að marka sennilega árið 1972 en þá var ég 7 ára og fyrir löngu byrjuð að suða.

Nú hefur gamli draumurinn ræst eða gerði það fyrir svona 22 árum síðan og nú marka ég öll lömb sem fæðast hér á bæ.

Já þeir eru misjafnir draumarnir í lífinu................

En það er alltaf gaman að rifja upp gamla góða tíma og þá er nú gaman að eiga svolítið af myndum.

 

 

Þarna erum við Rassa en það hét þessi heiðurs kind sem að ég man svo vel eftir.

 

 

Það eru margar góðar minningar frá dögum þar sem að lífið snérist bara um kindur.

 

 

Þarna er ég 8 ára með Golsu mín sem var mikið uppáhaldi fyrir rollusálina mig.

 

 

Við Golsa á góðum degi hún nokkra mánaða gömul ég 5 ára í alltof stórum stígvélum og það í krummafót.

Já það getur verið gaman að vera sauðfjárbóndi................................