07.10.2018 22:19
Málefnaágreiningur og smalagrín.
Það er ekki bara í mannheimum sem tekist er á um mikilvæg málefni og tilfinningar látnar í ljós.
Á þessum myndum er sótt hart að honum Jarpi mínum Glottasyni sem þarna fær svo sannarlega ,,orð í eyra,,
Öðlingurinn Fannar heldur sínu striki og Einstakur sá ljósi lætur sér fátt um finnast.
Skrefin hjá Jarpi verða stærri og það verður líka opni munnurinn á vini hans........
Hér er þar komið sem að niðurstaðan verður þöggun..........annar hallar höfði og hinn bítur saman tönnum.
En svona til fróðleiks þá er það alveg á hreinu að hann Jarpur var ekki að tapa fyrir neinum.
Já þær eru margar skemmtielgar myndirnar frá henni Christiane Slawik.
Síðustu dagar hafa mikið til farið í seinni leitir og annað kindastúss sem þó fer að sjá fyrir endann á.
Heimtur eru að verða þokkalegar svona m.v árstíma, þegar lambafjöldin er kominn niður fyrir 50 og rollufjöldin undir 40.
Það þýðir þó ekki að hér verði látið staðar numið og treyst á Gvöð og lukkuna hvað heimtur varðar.
Á næstunni eru það sterku gleraugun, dróninn og smalaskórnir. Sett sem getur ekki klikkað með góðu veðri og skemmtilegu fólki.
Já nú skal leitað og fundið.
Verð þó að segja ykkur svona í trúnaði að hún Pálína forustukind er enn óheimt.............
En örvæntið ekki hún er í sjónlínu héðan úr stofuglugganum alla daga. Mig grunar að henni líði ekki vel svona andlega allavega.
Aðferðin frá því í fyrra við að ná henni heim er nefninlega enn í fullu gildi, já hún er ljót. Sko aðferðin.
Hér eru nefninlega allir samstíga í því að sjá hana alls ekki og veita henni enga athygli.
Það er slæmt ef að maður er forustukind sem gjarnan vill hasar og stórbrotnar smalamennskur.
Mig grunar að þetta verði eins og í fyrra en þá gerði þetta ömurlega afskiptaleysi það að verkum að Pálína kom heim um opið hlið og smellti sér saman við hinar kindurnar á túninu. Hún lét svo eins og hún hefði að sjálfsögðu ákveðið þetta alveg sjáf og gjörsigrað alla vonlausa smala.
Já Pálína er engum lík.
Við erum búin að farga hátt í 800 lömbum og erum bara nokkuð sátt með vigt.
Næsta mál í fjárstússinu er svo að fara í gegnum kindahópinn og velja endanlega líflömbin.