11.05.2017 14:51
Og enn rokka rollurnar.
Það er komið sumar hér í Hlíðinni. Þó svo að svolítið blási þessa stundin þá er klárlega komið vor. Gróður er kominn vel af stað og nú er bara að sína smá biðlund. Þetta er tíminn þar sem mig langar helst að sleppa því að sofa bara gera, vera og njóta. En sennilega yrði nú húsfreyjan frekar geðvond ef að svefninn yrði sparaður líka og hana lagnar til. Sauðburður fór af stað með látum og ekkert gefið eftir í þeim efnum. Við sæddum heilan helling í vetur og þetta verður sennilega met árið með það hvernig ærnar hafa haldið. Þökk sé hrútunum , sæðingamanninum og jafnvel heyjunum. Það skal þó tekið fram að ég notaði ekki aðferðina sem að sæðingamaðurinn sagði mér frá í vetur. En hún var sú að til að ekkert færi nú á milli mála með hvaða ær vildu fá þjónustu sæðingamannsins var hrútur bundinn við staur í krónni. Hann átti að sjálfsögðu ekkert að gera bara vera. Sennilega tók hrúturinn ekkert mark á þessum fyrirmælum enda gat hann illa varist þegar ærnar gerðust nærgöngular og hann vesalingurinn bundinn. Ónei þetta var bara gott ár í sæðingamálum, allavega þegar horft er til síðustu ára. Ég á eftir að mynda nokkra uppáhaldsgripi sem út úr þessu bröllti komu. Þar má nefna Hnallþóru Hnalls, Jónas Jónasson, Geisla- Baug Baugs og Sorgbitinn Ebitason.
|
||||||||