25.02.2014 13:23

Dagurinn sem var ekki rok.........



Sumir dagar eru stóðhestadagar hér í Hlíðinni, þessi mynd er tekin á einum slíkum hér fyrr í vetur.



Og svo er hér önnur á hlið með fjöllin í Eyjahreppnum í baksýn, já það er upplag að nota blíðuna til að smella myndum af köppunum saman.

En núna er ................
Rok og aftur rok nei það er víst engin frétt þennan veturinn. Sleppum því bara og tölum um eitthvað skemmtilegara.

Það er gaman í hesthúsinu þessa dagana og alveg nóg að gera hjá okkur öllum.
Mummi var með reiðnámskeið í Grundarfirði um síðustu helgi og svo er það Söðulsholt í dag.
Það er orðið svolítið síðan ég sagði ykkur undan hvaða stóðhestum við værum að temja núna. En þó svo að stór hluti af hrossunum sé inni allan veturinn þá eru alltaf einhverjar breytingar. Tamningahross koma og fara og eins þau sem eru bara í söluþjálfun.
Feður þeirra hrossa sem eru hjá okkur núna eru m.a Sporður frá Bergi, Mídas frá Kaldbak, Grettir frá Grafarkoti, Arður frá Brautarholti, Breiðfjörð frá Búðardal, Glymur frá Skeljabrekku, Sólon frá Skáney, Aðall frá Nýja-Bæ, Hróður frá Refsstöðum, Adam frá Ásmundarstöðum, Auður frá Lundum, Feykir frá Háholti, Gosi frá Lambastöðum og Sparisjóður minn og fl. fl.

Eftir folaldasýninguna voru öll folöldin tekin undan og eru núna komin inn en mæðurnar komnar í orlof þangað til næstu afkvæmi fæðast. Það var mjóróma folaldakór sem söng í nokkra daga eftir að þau voru tekin undan. Hljómaði eins og drengjakór sem óðfluga stefnir í mútur.


Um síðustu helgi fengum við vaska sveina sem tóku veglega sveiflum með rúningsgræjurnar svo núna er bara eftir að taka af gemlingunum. Góð tilfinning svona í lok febrúar að horfa yfir fjárhúsin og bara eftir að taka af 160 gemlingum.
Myndir koma fljóttlega.