22.11.2013 23:33

Fréttir dagsins með sauðfjár ívafi.



Það var vinalegt að hafa þetta útsýni út um eldhúsgluggann en nú er það búið þetta haustið enda allar kindur komnar á hús. Ja nema þær sem eiga eftir að koma fram sem ég vona að séu nokkrar. Enn of margt sem ekki hefur skilað sér svona m.v síðustu ár.



Það fer vel á með þessum enda er frábært fyrir kindur að fá góðan ,,nebbaþvott,, svona alveg frítt.  Þær eru fljótar kindurnar að finna það út að Snotra dekrar við þær sem ekki stanga hana.
Eins og væntanlega glöggir fjármenn sjá þá er appelsínugult merki í þessari gimbur sem tilheyrir ekki þessu svæði hér. Þessi flotta gimbur kom saman við fullorðnu hrútana sem voru á túninu inní hlíð um daginn. Þar voru þeir settir til að sauðburðurinn byrjaði ekki á ókristilegum tíma en þangað kom þessi og nú er spurning hvort að hún beri snemma næsta vor. Móðir hennar og systir komu svo heim að Dunki og þegar þær mæðgur voru sóttar kom eigandinn (umráðamaðurinn) við til að sækja þessa gimbur.
Þar sem að hefðin var alveg að skella á þessa og hún passaði óaðfinnanlega vel í líflambakróna slóg ég til og smellti mér á þær báðar.
Nú röllta þær um með drotningarsvip og eru hæðst ánægðar með nöfnin sín Blesa og Lukka.



Loðmundur og Elvar Sterasynir eru þeir lambhrútar sem settir voru á hér í Hlíðinni þetta haustið. Vænir og fínir tvílembingar sem vonandi verað heiðurskappar með tíð og tíma. Þeir eiga sérstaka aðdáendur í Garðabænum enda synir Golsu sem þar á dygga vini.



Eftir það mikla ,,Steraæði,, sem rann á húsfreyjuna síðasta haust þegar hún kom í fjárhúsin á Dunki var þessum kappa bætt í safnið. Þarna er á ferðinni enn einn Sterasonurinn en þessi er frá Dunki. Við keyptum hrút þaðan fyrir nokkrum árum sem hefur reynst afar vel svo það var ástæðulaust að fara að flengjast eitthvað langt í burtu til að ná sér í góðan hrút.
Þessi hefur enn ekki fengið viðunandi nafn en fyrir á ég bæði Dunk og Kjartan svo eitthvað verður að finna á þennan sem hæfir. Guðrúnar er ekki sérlega þjált en hver veit ?



Nú er farið að sjást fyrir endann á rúningi þetta haustið en þarna er Vökustaur að fá sína jólaklippingu. Eins gott að vera vel til hafður fyrir fjörið sem framundan er hjá honum.

Það var afar líflegur dagur hér í Hlíðinni þennan daginn fyrir utan venjulegt stúss var ýmislegt framkvæmt. Hjalti dýralæknir mætti á svæðið og sprautaði hvern einasta hest á bænum með ormalyfi,  sónarskoðaði hryssurnar og gerði auk þess nokkur minni viðvik sem uppsöfnuð voru. Sprautaði einnig tæplega 160 ásetningslömb við garnaveiki.
Stóðinu er skipt upp í þrjá hópa svo þetta voru heilmiklar smalamennskur sér í lagi þar sem við þurftum að sandbera nokkra slóða til að verjast hálkunni. Allt var í góðu lagi og mikið er nú alltaf gaman að skoða stóðið spá og spekulegra.



Þessi vinkona mín hefur heldur betur stækkað frá því að þessi mynd var tekin fyrir bráðum tveimur árum. Hún var tekin inn í dag og kemst þar með í ,,fullorðins,, hrossa tölu.
Þetta er Auðséð mín undan Karúnu og Sporði frá Bergi.
Núna er bara að byrja að temja hana og sjá hvað setur, húsfreyjan er frekar spennt ;)