10.11.2013 20:52
Örfréttir
Þegar það er slydda og slagveður er gott að rifja upp eitthvað sumarlegt og láta sig dreyma.
Það sumarlega er náttúrulega hestaferð en kannske ekki í snjó eins og þessi sem við eru í þegar þessi mynd er tekin. En veðrið var gott og ferðin skemmtilega þó ekki væri ágúst með grænu grasi og sumarblíðu.
Sá sem úthlutar okkur veðri var örugglega með sérstakt þema í dag........svona allt í boði þema. Fyrst var það haustblíða, svo kom snjófjúk, bætti í vindinn sem varð að roki og slyddu. Loks var það rok og rigning og núna er rok og svolítið kalt en ekki frost. Grófleg samantekt í fáum orðum, blíða, logn, gjóla,strekkingur, rok, snjór, rigning, slydda.
Þetta var boðið uppá í dag en aldrei lengi í einu. Spurning um nýjan veðurstjóra ?????
Hér í Hlíðinni er búið að klippa vel á fjórða hundraðið af kindum og eftir veðrinu að dæma er líklegt að útgöngubann kinda gangi í garð á morgunn.
Þessir voru hressir og búralegir einn morguninn í síðustu viku Sveinbjörn og Ásberg Hraunholtabóndi. Vinur þeirra sem er með þeim á myndinni er hinsvegar ekki eins vel fyrirkallaður. Kannski hefur hann eitthvað misjafnt á samviskunni sem snýr að lélegum heimtum bænda hér á svæðinu? En sú samviska er þá farin með honum á vit feðra sinna.
Ófeigur að teyma Freyju, nú eða öfugt.
Freyja er að verða liðtæk við smalamennskurnar og fær óspart að æfa sig þessa dagana þegar
kindurnar eru hýstar flesta daga. Áhuginn er mikill og framfarirnar ásættanlegar, ef að hún væri mennskur smali væri full ástæða til að hæla henni. Hún fer gáfulega að kindum, lítið ofvirk, lætur þær hlýða sér og hefur heyrn á við heilbrigðan karlmann.
Þessi hefðarhundur er hinsvegar með allt á hreinu brosir og hlær alla daga og er gædd mörgum góðum kostum. Gallarnir eru helst þeir að liggja ekki á skoðunum sínum né fara lágt með það sem efst er á baugi hverju sinni. Kemur henni stundum í koll en hvað er ekki hægt að fyrirgefa þegar maður sér þetta brosandi andlit með gleði og geislandi augum ????
Hún er alltaf tilbúin að aðstoða jafnvel við fleira en gott þykir þegar kemur að smalamennskum.
Og það síðasta en ekki það sísta
Málglöð í meira lagi................eins gott að ég er búin að gleyma......... ,,fé er jafnan fóstra líkt"
Natascha okkar fékk góða gesti um daginn þegar foreldrar hennar komu í heimsókn hingað.
Þessi mynd var tekin við það tækifæri og auðvita fékk Salómon að vera með vinkonu sinni á myndinni.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir