07.11.2013 22:50

Í fréttum er þetta helst....



Það er kominn vetur og mikið er nú langt síðan ég hef smellt inn fréttum héðan úr Hlíðinni.
Sumpart er það leti en ekki hefur ömurlegt netsamband hjálpað til við fréttafluttninginn.
Nú er ég stödd í höfuðborginni og læt því vaða hér inn gamla mynd til að lífga uppá.

Já það hefur margt á dagana drifið síðan ég bloggaði síðast, tryppatamningar á fullu og hesthúsið orðið stút fullt af spennandi verkefnumu. Það er ekki hægt að nefna nein uppáhaldstryppi því að núna eins og oftast eru bara skemmtilegt hross inni. Það eru sko forréttindi að vinna við áhugamálin sín.

Mummi fór til Svíþjóðar og var þar með námskeið á nokkrum stöðum, bæði þar sem hann hefur verið áður og svo nokkrum nýjum. Hann var ánægður með ferðina og er strax farinn að hlakka til þeirrar næstu.
Mummi er líka byrjaður með reiðkennslu í Söðulsholti þar sem hann er með góða hópa á þriðjudögum. Hann kennir bæði knapamerkin og einnig eru stakir reiðtímar í boði.
Áður en að hann hóf kennslu þar var hann með sýnikennslu sem u.þ.b 30 manns mættu á.
Kella var á staðnum og tók nokkrar myndir sem væntanlega munu birtast þegar netið skánar.

Fyrir nokkru síðan var svo brunað uppað Skáney en þar var Jakob Sigurðsson með námskeið. Þegar Mummi var á öðru ári á Hólum fór hann í verknám í Steinholt til Jakobs og Torunnar. Hann var afar ánægður með dvölina þar um veturinn og hvatti því óspart til þess að fara á námskeið til Jakobs. Ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum faglegur og góður kennari.
 Ekki skemmdi svo fyrir að vera í þessari flottu aðstöðu sem að Skáneyjarbændur hafa komið sér upp. Já og svo var veisla hjá Randi í öll mál með tilheyrandi dekri.
Aldeilis flott að taka sér ,,námsleyfi,, eða ,,húsmæðraorlof,, og njóta lífsins á lúxushótelinu.
Þessi góði hópur sem eyddi þarna saman heilli helgi var mjög ánægður og er örugglega til í slaginn aftur. Og ég á fullt af myndum sem þurftu svo sannarlega að komast hingað inn.
Takk fyrir okkur Skáneyjarbændur og að sjálfsögðu Jakob Sigurðsson.

Að öðru, lömbin voru tekin á hús fyrir nokkru síðan og í gær bættust veturgamlar kindur og gamlar við. Aftekning hafin og allt að færast í vetrarskorður.
Heimtur er ekki alveg nógu góðar en kannske er einhver von ennþá með það.
Lífgimbrarnar eru komnar hátt á annað hundraðið en lambhrútarnir bara þrír og eiga það allir sameiginlegt að vera undan Stera. Einn af þeim er frá Kjartani og Guðrúnu á Dunki en hinir eru heimahrútar undan henni Garðabærjar-Golsu. Já og þeir voru nefndir í vor og fengu nöfnin Elvar og Loðmundur. Það er aldeilis munur að hafa góðar dömur á kanntinum til að nefna gripina.  Dunkurhrúturinn er ennþá ónefndur en það stendur til bóta.

Styttist í að á náttborðið komi uppáhaldslesefnið Hrútaskráin og Hrossaræktin.

Þessa dagana er mikið um fundi hjá húsfreyjunni, stjórn Félags tamningamanna hittist í Borgarnesi á mánudaginn, Fagráð í hrossarækt fundaði í dag og á morgunn er það svo formannafundur Landssambands hestamannafélaga.
Óðum styttist í aðalfund Félags hrossabænda og í desember er það svo aðalfundur Félags tamningamanna.

Já nóg um að vera og nú er bara vona að netinu ,,batni,, fljóttlega.