30.09.2013 22:23

Ýmislegt að gerast



Léttlindur, Amor og Blástur að njóta haustblíðunnar.

Ég fór ekki í Skagafjörinn fína um helgina en hafði það samt bara ljómandi gott.
Óneitanlega hefði verið gaman að smella sér í Laufskálaréttina en það bíður um sinn
eins og margt fleira.

Tamningar og þjálfun eru í fullum gangi og alltaf eitthvað nýtt og spennandi að bætast við í hrossahópinn. En það eru líka margir sem hafa farið í haustfríið sitt og verið sleppt uppí fjall.
Frumtamningarnar eru að komast vel af stað en við eigum þó eftir að sækja vænan hóp frá okkur sem verður tekin fljóttlega.
 Mörg skemmtileg tryppi hafa verið að koma hingað í tamningu að undanförnu.
Til fróðleiks og gamans get ég talið upp nokkra feður sem við erum að temja undan núna.
Alvar frá Brautarholti, Aðall frá Nýja-Bæ, Auður frá Lundum, Arður frá Brautarholti,  Möller frá Blesastöðum, Keilir frá Miðsitju, Glotti frá Sveinatungu, Gosi frá Lambastöðum, Sólon frá Skáney, Blær frá Torfunesi, Óður frá Brún og margir fleiri.
Framundan er svo að taka trippi m.a undan Glym frá Skeljabrekku, Sporði frá Bergi, Ramma frá Búlandi, Aldri frá Brautarholti og fleirum.

Var sennilega ekki búin að segja ykkur að hún Sjaldséð mín er fenginn við honum Sólon frá Skáney. Svo nú er bara að bíða eftir ,,gráu hryssunni,, sem fæðist næsta vor.
Þjónustan sem ég fékk var nú ekkert slor því hryssan var keyrð heim í hlað til okkar um leið og fjórir galvaskir smalar bættust í hópinn. (Sjá smalamyndir frá því í síðustu viku).

Eftir allar réttarmyndirnar sem hafa svo sannarlega ekki verið birtar allar ætti ég nú að setja inn svolítið af tamningamyndum við tækifæri.

Fyrstu tölur úr sláturhúsinu eru viðunandi miðað við allt og allt en mikið væri nú gaman að eiga fleiri lömb. Líflambavalið fer svo fram um miðjan mánuðinn þegar við förgum restinni.
Heimtur fara batnandi og eru sennilega betri en á sambærilegum tíma síðustu ár.