27.09.2013 21:45

Einlægir vinir



Sparisjóður frá Hallkelsstaðahlíð og knapinn Guðný Dís.

Einlægni er falleg og að henni á að hlúa sama í hverju hún birtist, einlægur vinur, einlægur aðdáandi nú eða bara einlæg vinátta. 

Þau voru eitthvað svo einlæg þessi tvö þegar þau tóku fyrsta reiðtúrinn saman um síðustu helgi, Guðný Dís og Sparisjóður.
Þetta byrjaði allt með skemmtilegu spjalli hjá okkur ,,stelpunum,, þegar við vorum saman á fjórðungsmótinu í sumar. Við töluðum ekki mikið en hugsuðum því meira, hvorug vildi fara of hratt í samtalið enda berum við virðingu hvor fyrir annari.
 Sú minni var svolítið stúrin enda getur það rifið í að eiga yngri systur sem fara hratt yfir bæði í orði og verki.
Þegar við höfðum spjallað nokkra stund barst Sparisjóður í tal, hesturinn sem gerir kúnstir og þiggur endalausa athygli. Sú minni sagði að hann væri sá skemmtilegasti í hesthúsinu, sú stærri samþykkti það. Geta unglingar farið á bak á hann ? spurði sú minni, já já sagði sú stærri.
Þegar hér var komið við sögu hljóp sú minni til mömmu sinnar og hvíslaði einhverju að henni. En sú stærri svaraði símanum sem hringir stundum. Þegar við stelpurnar vorum búnar að ræða við mömmuna og símann settumst við aftur saman og héldum áfram þar sem frá var horfið í samræðunum. Eða öllu heldur þögðum svolítið saman og biðum hver eftir annari enda er ekki alltaf víst að maður græði á einhverju flasi.
Til að liðka fyrir áframhaldandi samtali spurði sú stærri hvað besta vinkonan héti..... fékk ekkert svar. Og bætti svo við mjög heimskulegri spurningu um það í hvaða skóla sú minni færi í haust.......ekkert svar.
Á meðan sú stærri reyndi að láta sér detta eitthvað skynsamlegt í hug sem gæti reynst nothæft í þessar samræður iðaði sú minni í skinninu en sagði ekki neitt.
Svona gekk þetta í nokkra stund.
En loksins kom spurningin frá þeirri minni ,,hvað í heiminum langar þig mest til að gera,, ?
Þeirri stærri vafðist tunga um tönn og hugurinn fór á flug.  Áður en ráðrúm gafst til að opinbera einhverja drauma hjá þeirri stærri stundi sú minni ,,ég veit hvað mig langar,,
Nú og hvað langar þig til að gera spurði sú stærri ? Fara á bak á Sparisjóð sagði sú minni með saman bitnar varir og hljóp svo í burtu svona ef að svarið yrði ekki í samræmi við væntingar.

Að sjálfsögðu var svarið já en tíminn frá Fjórðungsmóti fram að réttum var langur en vel nýttur til undirbúnings.
Það var svo um réttirnar sem sú minni mætti í spari hestadressinu, með demantabeisli, hnakk og hjálm. Já allur þessi búnaður var fluttur úr Garðabænum til að prófa vininn sinn Sparisjóð. Auðvitað hefur maður sínar græjur með þegar mikið liggur við.
Prufurnar gengu óaðfinnanlega og bæði hestur og knapi höfðu gagn og gaman af.

Nú ganga allar samræður vel og liðugt fyrir sig hjá hjá þeirri minni og þeirri stærri enda er ,,umræðuefnið,, til staðar.



Hífandi rok en bæði brosa og njóta.

Að skilnaði fékk svo Sparisjóður spónabagga að gjöf frá vinkonu sinni.

Já einægir vinir eru gulli dýrmætari.