02.01.2013 21:46

Árið 2012



Við hér í Hlíðinni óskum ykkur gleðilegs árs með óskum um farsæld, gleði og frið á nýju ári.
Kærar þakkir fyrir það liðna sjáumst vonandi hress og kát á árinu 2013.

Um áramót er við hæfi að líta um öxl og fara yfir það hvernig árið var í raun fyrir bændur og búalið hér í Hlíðinni.

Síðustu klukkustundir ársins og það sem af er þessu nýja ári hafa verið erfiðar fyrir eina af uppáhaldshryssunum okkar. En á gamlársdag veiktist hún Skúta hans Mumma heiftarlega sennilega af hrossasótt. Skúta var ansi langt leidd og mikil heppni að fljótt náðist í dýralæknirinn okkar hann Hjalta sem staddur var í næstu sveit og brást skjótt við og kom.
Hjalti hefur komið þrisvar síðan og gert allt sem í hans valdi er til að bjarga hryssunni, auk þess hefur verið vakað yfir henni allan sólarhringinn. Ekki er enn útséð með það hvernig fer en vonandi hefur Skútan þetta af enda með eindæmum sterk og hraust fyrir.
Á fésbókarsíðunni minni hafa margir sent góðar kveðjur með von um bata sem ég veit að gerir bara gott.
Það er nefninlega þannig að jákvæðini er ótrúlega gott meðal við ýmsum kvillum, jafnt hjá skepnum og mönnum. Ætti að vera miklu meira notað í mannlegum samskiptum.

Ég renndi bæði yfir dagbók og blogg til að rifja upp hvað hefði verið um að vera á árinu 2012.
Margt hefur á dagana drifið og flest af því skemmtilegt og þroskandi.
Mikið hefur verið að gera í tamningum og þjálfun bæði fyrir okkur og ekki síður aðra. Við lauslega yfirferð sýnist mér að hér hafi farið í gegn ca 70 hross auk heimahrossana á árinu 2012.
Margir hestahópar komu við hjá okkur í sumar, nokkrir stoppuðu yfir nótt og aðrir komu bara við. Alltaf gaman að taka á móti hestafólki í hestaferðum.
Mummi útskrifaðist sem reiðkennari frá  Háskólanum á Hólum síðast liðið vor.
Hann dreif sig strax af stað í kennslu og hefur bæði haldið námskeið hér heima og einnig hefur hann farið til Svíþjóðar í nokkur skipti til að halda námskeið. 
Astrid stundar nám á Hólum og er nú á öðru ári, námið hefur gengið vel og nú er hún á lokasprettinum áður en hún fer í verknám.

Ein hryssa í okkar eigu var sýnd á árinu en það var hún Sjaldséð. Hún stóð sig með prýði m.v aldur, menntun og fyrri störf eins og sagt er og er komin í 1 verðlaun.
Mummi var duglegastur af okkur að taka þátt í keppni og sýningum á árinu, keppti m.a.  á Gosa frá Lambastöðum á LM í Reykjavík. Við hin kepptum öll en þó í mun minna mæli.
Sjö folöld fæddust hér á árinu fjórir hestar og þrjár hryssur.
Nokkrir gamlir höfðingjar úr stóðinu voru felldir á árinu og nokkur hross skiptu um eigendur og fluttu í nýja heimahaga.

Sauðfjárbúskapurinn gekk sinn vanagang á árinu, við fengum góða aðstoð við sauðburðinn og ekki var hópurinn sem aðstoðaði okkur við leitir og réttir síðri.
Þó svo að ,,hvítflibbatvöþúsundogsjöliðið,, telji sauðfjárbúskap ónauðsynlegan, hallærislegan og gamaldags þá verð ég alltaf sannfærðari og sannfærðari um nauðsyn hans fyrir land og þjóð. Hans tími mun koma......og ekki skemmir fyrir hvað hann er mannbætandi.

Þrátt fyrir allt gekk heyskapurinn hér nokkuð vel og var byrjað í seinna lagi að gefa útigangi. En mikið fann maður til með bændunum fyrir norðan sem fengu harðindi alltof snemma í haust. Það er ekkert grín að vera heytæpur og þurfa að byrja gjafir mikið fyrr en venjulega.

Hlíðarættin átti góða daga saman í lok júní þegar haldið var ættarmót í Laugargerði. Mætingin var þokkaleg og mikið var gaman að hitta mannskapinn spjalla og hafa gaman.

Algjört met var slegið í fjölda gönguhópa sem fóru hér um í sumar enda er þriggja vatnaleiðin svokallaða ein vinsælasta gönguleið landsins. Spurning um að fara pússa gönguskónna og finna sér skemmtilega göngufélaga ? Eða ætti ég kannske bara að leggja á og fara frekar ríðandi?

Árið 2012 var nokkuð gott ár og ekki annað sanngjarnt en að þakka fyrir það á meðan maður og manns nánustu eru við þokkalega heilsu. Það er þó einhvernveginn þannig að það verður ekki árið sem ég tárast af sökknuði við að rifja upp.  Var einmitt að hugsa um hvað mér fannst það alltaf sorglegt þegar sungið var ,, Nú árið er líðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka,,  en 2012 var bara orðið gott.

Árið 2013 verður gott ár og ég trúi því staðfastlega að 13 sé happatala, reyndar efast ég ekki um það eitt augnablik.

Hér hef ég aðeins stikklað á stóru hvað viðburði varðar frá síðasta ári, örugglega gleymt mörgu mjög mikilvægu. En síðustu dagar hafa verið svolítið strembnir og því ekki við öðru að búast en eitthvað skolist til.

Uppúr stendur þó hvað við höfum átt góð og ánægjuleg samskipti við fjöldan allan af góðu fólki á árinu. Það er ekki sjálfgefið að njóta þess að hafa fjöldan allan af góðu fólki allt um kring hvort sem það er í leik eða starfi.
Kærar þakkir fyrir samskiptin og ekki síst innlitin hér á síðuna árið 2012.
Góðar stundir.