10.03.2012 22:28
Það liggur svo makalaust ljómandi á mér............
Ég hef fengið misjöfn viðbrögð við síðasta bloggi en þar rakti ég spennusögu sauðfjárbónda.
Ein góð vinkona mín úr landbúnaðargeiranum sá meira að segja ástæðu til að hringja í mig og kanna andlegt ástand mitt. Auðvitað var það gott og húsfreyjan himinn lifandi enda ný kominn úr frábærum reiðtúr þegar síminn hringdi.
Og að sjálfsögðu held ég því fram að ég hafi ekki farið í fýlu síðan rétt eftir miðja síðustu öld eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Á myndinni erum við frændsystkynin Þóra, Hallur og ég sem var ekki í sérstöku fyrirsætu stuði eins og sjá má.
Við skelltum okkur á góðan fund suður að Hvanneyri í vikunni en þar voru þeir félagar Guðlaugur Antonsson, Kristinn Guðnason og Lárus Hannesson á ferð.
Þetta er árleg hringferð þeirra félaga en eins og einhverjir muna þá fór ég með þeim fyrir tveimur árum síðan. Ferðasagan er hér á blogginu með myndum og ferðalýsingu.
Í fyrra var það Haraldur Þórarinsson formaður LH sem fór með þeim en í ár er það formaður gæðingadómarafélgsins Lárus Hannesson sem er þriðja hjólið.
Margt fróðlegt kom fram og var m.a listi yfir helstu fyrirmyndarsýnendur kynbótahrossa gerður opinber. En það er listi yfir þá aðila sem sýna fleiri en 10 hross í kynbótasýningum ársins og eru til fyrirmyndar hvað áverka varðar.
Ég birti þennan lista hér fljóttlega því mér finnst sjálfsagt að kynna hvaða fólk þetta er sem nær þessum góða árangri.
Í dag fór ég á árlegt endurmenntunarnámskeið gæðingadómara sem haldið var í Reykjavík.
Ágætis námskeið og alltaf gaman að hitta mannskapinn, þá er ég búin að fara á endumenntunarnámskeið bæði í íþrótta og gæðingadómum þetta árið.
Veðrið var ekki skemmtilegt á heimleiðinni og mátti eiginlega segja að ég fyki heim.
Ég var meira að segja svo hress eftir ferðalagið að ég rauk til og bakaði bæði snúða og skinkuhorn þegar heim var komið.
Svona getur húsmæðraveikin blossað upp, já rétt eins og flensan.
Aftekningar standa yfir þessa dagana svona þegar ekki er útreiðaveður og þar sem nóg hefur verið af umhleypingum þá er þetta bara að verða komið vel á veg. Eins gott að vera búin að taka af þegar Nossarinn okkar hann John kemur að sóna kindurnar.
Allt gott að frétta úr hesthúsinu og nú verð ég að fara að standa mig betur við að taka myndir af hrossunum sem eru í þjálfun. Þið verðið jú að geta fylgst með eða hvað?
Að lokum til að fyrirbyggja allan misskilning þá liggur ljómandi vel á mér þessa dagana.
Skrifað af Sigrún Ólafsdóttir