18.02.2012 21:44

Stoltblogg...........



Varúð..........montblogg.

Já við gerðum góða ferð á folaldasýningu sem haldin var í Söðulsholti og erum bara svolítið montin skal ég segja ykkur. Það má nú svona stundum er það ekki???

Keppt var í tveimur kynjaskiptum flokkum og voru rétt um 50 folöld skráð til leiks og kepptu.
Fyrir dellufólk eins og mig er alltaf gaman að spá í ættir og þá sérstaklega ferðurna því nær alltaf þekki maður meira til þeirra en mæðranna.
Þarna voru folöld undan mörgun þekktum stóðhestum svo sem Sveini- Hervari, Arði frá Brautarholti, Sæ frá Bakkakoti, Dug frá Þúfu, Tinna frá Kjarri, Dofra frá Steinnesi, Ugga frá Bergi, Spuna frá Vestukoti, Hákoni frá Ragnheiðarstöðum, Kvisti frá Skagaströnd, Álfi frá Selfossi, Glymi frá Skeljabrekku og Fláka frá Blesastöðum.
Og að sjálfsögðu mörgum öðrum heiðurshestum sem ég tel ekki upp hér.
Frá okkur hér í Hlíðinni komust fjögur folöld í úrslit þau Stoltur, Krakaborg, Fleyta og Randi.
Við vorum himinnlifandi með það og sér í lagi þar sem við notuðum öskubylinn í gær til að reka folöldin inn og voru því ekki búin að raka þau eða meðhöndla á nokkurn hátt.
Eftir úrslitin var staðan þannig að Stoltur minn sigraði flokk hestfolalda, Krakaborg sigraði flokk merfolalda, Fleyta litla var í öðru sæti og Randi í 4-5 sæti.
Þetta var líka góð skipting á verðlaunum svona ,,heimilisfriðarlega,, séð..............
Ég á Stolt sem er undan Tign minni og Alvari frá Brautarholti, Skúli á Krakaborg sem er undan Þríhellu hans og Sporði frá Bergi, Mummi á Fleytu sem er undan Skútu hans og Stíganda frá Stóra-Hofi og að lokum á Sveinbjörn frændi minn Randi sem er undan Snör og Soldáni frá Skáney. Folatollinn undan Soldáni fékk Sveinbjörn í afmælisgjöf frá Randi og Hauk í Skáney, svo kallinn er heldur betur glaður með gjöfina fínu.



F.v Sigríður á Hjarðarfelli sem átti þriðja sætið fyrir Herkúles, Borghildur Gunnarsdóttir, Hrísdal sem átti annað sætið fyrir Kjöl og síðan húsfreyjan sem er stolt af Stolti sínum í fyrsta sætinu.
Einar bóndi í Söðulsholti afhennti verðlaunin með góðri aðstoðarstúlku úr eigin ræktun.



Þá er það flokkur merfolalda, þriðja sætið fékk Halldóra Einarsdóttir í Söðulsholti fyrir Kríu sína, annað sætið hlaut Guðmundur Margeir Skúlason fyrir Fleytuna sína, (mútta gamla tók við verðlaununum) og loks Skúli Skúlason sem hlaut fyrsta sætið fyrir Krakaborg sína.

Að sjálfsögðu fannst okkur þetta góður dagur og erum kát með úrslitin þó svo að þetta sé bara til gamans gert. Það er jú gott markmið að hafa gaman af lífinu og þetta er hluti af því.